Innlent

Hálku­blettir víða og færð tekin að spillast

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Brýnt er að fylgjast vel með færðinni.
Brýnt er að fylgjast vel með færðinni. Vísir/Vilhelm

Hálkublettir eru víða á vegum og færð er tekin að spillast á Suðurlandi og á Vestfjörðum. Töluverðri ofankomu er spáð á Suðurlandi og Suðausturlandi í dag og getur orðið þungfært á skömmum tíma. Veðurfræðingur hvetur fólk til að fylgjast vel með færðinni.

Það er farið að snjóa á Suðurlandi og snjóþekja og éljagangur er á Hellisheiði og í Þrengslum. Ekkert ferðaveður er á sunnanverðum Vestfjörðum vegna blindu og slæmra akstursskilyrða og ófært er á Bíldudalsvegi.

„Það nær væntanlega eitthvað inn í höfuðborgina líka en það verður sennilega ekki mikið. Það getur snjóað nokkuð drjúgt á Suðurlandi og kannski austur í Öræfi. Það verður fyrst og fremst þar sem snjóar,“ segir Haraldur Eiríksson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Hann segir að höfuðborgin verði væntanlega í jaðrinum á lægðardragi sem gengur nú yfir.

„Ég held að við sleppum nú ekki við snjókomu en hún ætti ekki að vera til vandræða hér. Það kemur væntanlega smá föl yfir gamla snjóinn hérna í borginni,“ segir Haraldur.

Færðin getur spillst með skömmum fyrirvara og Haraldur segir að menn verði að hafa varann á. Hægt sé að fylgjast með færðinni á síðu Vegagerðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×