Erlent

Ritari dæmdur fyrir hlut­deild í fleiri en tíu þúsund morðum

Kjartan Kjartansson skrifar
Irmgard Furchner var átján og nítján ára gömul þegar hún vann sem ritari í útrýmingarbúðum í Stutthof. Því var réttað yfir henni fyrir ungmennadómstól í bænum Itzehoe.
Irmgard Furchner var átján og nítján ára gömul þegar hún vann sem ritari í útrýmingarbúðum í Stutthof. Því var réttað yfir henni fyrir ungmennadómstól í bænum Itzehoe. AP/Christian Charisius

Fyrrverandi ritari í útrýmingarbúðum nasista var fundinn sekur um hlutdeild í morði á um 10.500 manns í Þýskalandi í dag. Konan er á tíræðisaldri en hún hlaut tveggja ára skilorðbundinn fangelsisdóm.

Imgard Furchner er 97 ára gömul og fyrsta konan sem réttað er yfir vegna glæpa nasista í áratugi. Hún starfaði sem ritari í útrýmingarbúðum í Stutthof þegar hún var táningur frá 1943 til 1945, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Þúsundir manna voru teknir af lífi í gasklefum þar á þeim tíma.

Dómari í bænum Itzehoe í norðanverðu Þýskalandi sem kvað upp dóminn sagði að Furchner hefði verið fullkunnugt um það sem fór fram í búðunum þrátt fyrir að hún hafi verið borgaralegur starfsmaður. Hún hefði getað sagt upp störfum hvenær sem var.

Því var hún var fundin sek um að aðstoða við dráp á 10.505 manns og hlutdeild í tilraun til að drepa fimm til viðbótar. Furchner lýsti iðrun og harmaði að hafa verið í útrýmingarbúðunum á meðan morðin áttu sér stað. Ekki liggur fyrir hvort að hún ætli að áfrýja dómnum.

Stutthof er nærri núverandi landamærum Þýskalands og Póllands. Talið er að um 65.000 manns hafi verið teknir af lífi þar, þar á meðal gyðingar, Pólverjar og sovéskir stríðsfangar.

Fólk sem lifði af vistina í útrýmingarbúðunum bar vitni við réttarhöldin en sumt þeirra lést á meðan á þeim stóð. Furchner flúði af elliheimilinu þar sem hún bjó þegar réttarhöldin hófust í fyrra en lögregla fann hana á götum Hamborgar.

Mögulegt er að réttarhöldin yfir Furchner verði þau síðustu sem tengjast glæpum nasista í Þýskalandi. Rannsókn stendur þó enn yfir á nokkrum einstaklingum til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×