Erlent

Könnuðu skemmdirnar á ferjunni við geim­stöðina

Kjartan Kjartansson skrifar
Alþjóðlega geimstöðin á braut um jörðu eins og hún kom fyrir sjónir áhafnar Soyuz MS-19 eftir að geimferjan lagði frá henni í mars.
Alþjóðlega geimstöðin á braut um jörðu eins og hún kom fyrir sjónir áhafnar Soyuz MS-19 eftir að geimferjan lagði frá henni í mars. APRoscosmos

Áhöfn Alþjóðlegu geimstöðvarinnar á braut um jörðu notuðu vélmennaarm til þess að kanna skemmdir sem urðu á rússneskri Soyuz-geimferju í gær. Yfirvöld á jörðu niðri íhuga hvort senda þurfi annað geimfar til þess að ferja hluta áhafnarinnar heim.

Leki kom á kælikerfi Soyuz-geimferjunnar sem liggur við geimstöðina á aðfararnótt fimmtudags. Einn af forstöðumönnum rússnesku geimstofnunarinnar Roscosmos sagði að mögulega hefði örlofsteinn valdið því að kælivökvi streymdi frá farinu út í geim. Engin hætta steðjaði þó að geimförunum um borð.

Nú segir stofnunin að geimfararnir sjö um borð í geimstöðinni hafi notað myndavél á kanadískum vélmennaarmi til að ná myndir af geimferjunni. Þær og önnur gögn verði notuð til þess að taka ákvörðun um næstu skref. Geimferjan á að óbreyttu að ferja hluta áhafnarinnar til jarðar í mars.

Til greina kemur að senda annað Soyuz-geimfar til geimstöðvarinnar á undan áætlun. Starfsmenn við Baikonur-geimmiðstöðina í Kasakstan undirbúa nú að skjóta öðru Soyuz-geimfari með þremur geimförum um borð á loft í mars. Telji yfirmenn geimstofnunarinnar nauðsyn á yrði ferjan send mannlaus til geimstöðvarinnar.

Bilunin leiddi til þess að fyrirhugaðri geimgöngu tveggja rússneskra geimfara var frestað á fimmtudag. Bandaríkjamenn ætla að halda ótrauðir áfram með áætlaða geimgöngu sína nú á miðvikudag.


Tengdar fréttir

Grunar að ör­loft­steinn hafi valdið skemmdum á geim­ferju

Rússneska geimstofnunin segir að mögulega hafi örloftsteinn valdið skemmdum á Soyuz-geimferju sem liggur við Alþjóðlegu geimstöðina á braut um jörðu. Geimferjan lekur kælivökva en hún á að vera nokkurs konar björgunarbátur fyrir áhöfnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×