Innlent

Endurheimt dráttarbeislisins kannski sögulok Geysisslyssins

Kristján Már Unnarsson skrifar
Haukur Alfreðsson rekstrarverkfræðingur er sonur Alfreðs Elíassonar, eins af stofnendum Loftleiða.
Haukur Alfreðsson rekstrarverkfræðingur er sonur Alfreðs Elíassonar, eins af stofnendum Loftleiða. Ívar Fannar Arnarsson

Merkum flugsöguminjum, sem tengjast Geysisslysinu á Vatnajökli, hefur verið bjargað til byggða eftir að hafa legið uppi á hálendi í meira en sjötíu ár. Sonur Alfreðs Elíassonar, stofnanda Loftleiða, sótti gripina núna í vetrarbyrjun ásamt félaga sínum í þriggja daga leiðangri að rótum Síðujökuls.

Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 og birt gömul myndskeið úr heimildarmyndinni Alfreð Elíasson og Loftleiðir sem sonur Alfreðs og höfundur myndarinnar, Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, veittu okkur góðfúslegt leyfi til að sýna.

Loftleiðamenn grafa skíðaflugvélina upp úr jöklinum vorið 1951. Hún hafði lent á Bárðarbungu haustið áður til að sækja áhöfn Geysis.Úr myndinni Alfreð Elíasson og Loftleiðir

Brotlending Loftleiðavélarinnar Geysis á Bárðarbungu þann 14. september árið 1950 og fagnaðarbylgjan sem fór um landið þegar sex manna áhöfn hennar fannst á lífi fjórum dögum síðar er einn frægasti atburður íslenskrar flugsögu.

Og ekki síður eftirleikurinn, þegar Dakota-skíðavél bandaríska flughersins, sem átti að sækja áhöfnina, komst ekki á loft og snjóaði inni á jöklinum. Loftleiðamönnum tókst svo vorið eftir að grafa hana upp úr sex metra djúpri fönn og fljúga til byggða.

Hér sést beislið sem notað var til að draga flugvélina niður af Vatnajökli.Úr myndinni Alfreð Elíasson og Loftleiðir

Þeir Haukur Alfreðsson og Jón Atli Ólafsson eru þó ekki á því að sögunni sé lokið því þann 12. október síðastliðinn lögðu þeir upp í leiðangur. Tilgangurinn var að sækja hlut sem hafði orðið eftir á fjöllum vorið 1951 þegar Loftleiðamenn drógu skíðavélina af Bárðarbungu og niður af jöklinum alla leið á hraunsléttu norðan við fjallið Blæng þar sem þeim tókst að koma henni á loft.

Mannfjöldi fagnaði komu Dakota-skíðavélarinnar til Reykjavíkur þann 7. maí 1951. Loftleiðamenn gáfu henni nafnið Jökull.Úr myndinni Alfreð Elíasson og Loftleiðir

Mannfjöldi fagnaði Alfreð Elíassyni og félögum þegar þeir svo lentu vélinni á Reykjavíkurflugvelli. Á þeim sama stað, þar sem Loftleiðir voru með flugafgreiðslu sína, höfum við mælt okkur mót við son Alfreðs, Hauk, til að forvitnast um ferðalag þeirra núna á haustdögum upp á Síðufjöll.

„Við fórum austur að Kirkjubæjarklaustri og síðan upp að Vatnajökli, Síðujökli, og náðum í gamalt beisli sem er búið að vera þar frá því ég fæddist, árið 1951,“ segir Haukur.

Þeir Alfreð Elíasson, Kristinn Olsen og Hrafn Jónsson við komuna til Reykjavíkur. Með Alfreð er eiginkonan, Kristjana Milla Thorsteinsson.Úr myndinni Alfreð Elíasson og Loftleiðir

Hann segir að þeir Alfreð, Kristinn Olsen og Hrafn Jónsson hafi skipulagt leiðangurinn en Hrafn smíðaði dráttarbeislið sérstaklega fyrir þetta verkefni.

„Þetta beisli var notað til þess að draga vélina niður af jöklinum og niður á stað sem þeir töldu að væri óhætt að taka vélina í loftið aftur. Þetta tók þá einhverja 29 daga að grafa vélina upp úr jöklinum, meira að segja tvisvar sinnum, og koma henni niður af jöklinum, á 29 dögum.“

Þeir Haukur Alfreðsson og Jón Atli Ólafsson með Rolls Royce-vélina Leif Eiríksson. Fyrir aftan er málverk af Alfreð Elíassyni.Úr einkasafni

Geysisslysið settið fjárhag Loftleiða í uppnám. Þegar Bandaríkjaher afskrifaði skíðavélina eftir árangurslausa leiðangra til að bjarga henni gripu Loftleiðamenn tækifærið.

„Og keyptu vélina fyrir lítið en gátu síðan selt hana fyrir góðan pening. Og þannig björguðu þeir í raun og veru fjárhag félagsins.“

Loftleiðamenn fengu flugvélina á brotajárnsverði eftir að bandaríski flugherinn afskrifaði hana.Úr myndinni Alfreð Elíasson og Loftleiðir

Haukur segir að alltaf hafi verið vitað um beislið en það er níu metrar á lengd og sex og hálfur á breidd. Beislið hafði upphaflega reynst of fyrirferðarmikið til ferðalagsins árið 1951 og var því tekið í sundur og svo aftur sett saman á jöklinum.

Dráttarbeislið hafði legið við fjallið Blæng frá árinu 1951.Haukur Alfreðsson

„Og það er bara mjög heillegt. Við ákváðum það sem sagt að taka það ekki í sundur því að þá hefðum við hreinlega bara eyðilagt það.“

Olíutunnur sem þeir fundu einnig á staðnum komu sér vel þegar nota þurfti vogarafl til að lyfta 300 kílóa þungu beislinu upp á kerruna. Tunnurnar eru líka söguminjar því þær gegndu hlutverki flugbrautarmerkinga árið 1951.

Jón Atli og Haukur komnir með beislið á kerruna.Haukur Alfreðsson

„Þá var snjór yfir hrauninu og þeir settu tunnurnar þar sem þeir vildu vera komnir í loftið. Það segir nú í bókinni hans pabba að þeir hafi verið komnir í mikla hæð þegar þeir loksins komust að tunnunum því að flugtakið tókst það vel.“

Leiðangur þeirra Hauks og Jóns Atla tók þrjá daga. Síðasta daginn var kominn snjór og krapi og yfir ár og vegleysur að fara. En hversvegna að leggja þetta allt á sig?

Beislið á leið til byggðaHaukur Alfreðsson

„Ja.. beislið er náttúrulega stórmerkilegt og það er synd að láta það bara tærast þarna upp við Vatnajökul. Hugmyndin er sem sagt að koma því vel fyrir, inn á safn, þannig að það varðveitist,“ svarar Haukur.

-Þetta er hluti af flugsögunni?

„Já, þetta er mikill hluti af flugsögunni. Og er í raun og veru svona kannski endirinn á Geysisslysinu og þessari björgun; að koma beislinu til byggða,“ segir sonur Alfreðs Elíassonar.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Flugmódel af Geysi flýgur í fyrsta sinn

Eftirlíking af Loftleiðavélinni Geysi, sem brotlenti á Vatnajökli haustið 1950, þykir eitt glæsilegasta flugmódel sem smíðað hefur verið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×