Körfubolti

Haukar og Stjarnan tryggðu sér sæti í undanúrslitum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Keira Robinson var stigahæst í liði Hauka í kvöld.
Keira Robinson var stigahæst í liði Hauka í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Haukar og Stjarnan urðu í kvöld tvö seinustu liðin til að tryggja sér sæti í undanúrslitum VÍS-bikars kvenna í körfubolta. Haukar unnu nauman tveggja stiga sigur gegn Grindavík, 66-64, og 1. deildarlið Stjörnunnar hafði betur gegn Subway-deildarliði ÍR, 84-92. Haukar eru ríkjandi bikarmeistarar og eiga því enn möguleika á að verja titilinn.

Leikur Hauka og Grindavíkur var jafn og spennandi frá upphafi til enda. Liðin skiptust alls fimm sinnum á forystunni og þá var átta sinnum jafnt í leiknum. Mestur varð munurinn átta stig á liðunum, en það voru að lokum Haukar sem höfðu betur með tveggja stiga mun, 66-64.

Keira Robinson var stigahæst í liði Hauka með 21 stig, en hún tók einnig tíu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Í liði Grindavíkur var Danielle Rodriguez atkvæðamest með 20 stig.

Þá vann 1. deildarlið Stjörnunnar góðan átta stiga sigur gegn Subway-deildarliði ÍR, 84-92. ÍR-ingar voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu að tveimur leikhlutum loknum með átta stigum, 40-32.

Stjörnukonur snéru taflinu þó sér í vil í síðari hálfleik og unnu að lokum sterkan sigur. Diljá Ögn Lárusdóttir átti frábæran leik í liði Stjörnunnar og skoraði 31 stig, en Greeta Uprus dró vagninn fyrir ÍR-inga og skoraði 27 stig ásamt því að taka 13 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×