Erlent

Á­stand fjögurra barna al­var­legt eftir að hafa fallið í gegnum ís á enskri tjörn

Atli Ísleifsson skrifar
Frá leitaraðgerðum í Babbs Mill Park í Solihull í Englandi fyrr í kvöld.
Frá leitaraðgerðum í Babbs Mill Park í Solihull í Englandi fyrr í kvöld. Getty

Fjögur börn eru sögð alvarlega slösuð eftir að hafa farið í hjartastopp í kjölfar þess að hafa fallið í gegnum ísinn á tjörn í Solihull, suðaustur af Birmingham í Englandi fyrr í kvöld.

Sky News greinir frá því að viðbúnaður sé mikill í Babbs Mill almenningsgarðinum í Solihull eftir að tilkynning barst um að börn, sem hafi verið að leik, hafi fallið í gegnum ísilagða tjörnina.

Lögregla hefur ekki staðfest hvað mörg börn hafi fallið í gegnum ísinn, eða þá hvort einhverra sé saknað. Samkvæmt fyrstu fréttum af vettvangi voru sex börn að leik á tjörninni.

Lögreglustjórinn Richard Harris segir að mikill fjöldi slökkviliðs- og lögreglumanna sé á vettvangi og að leit standi enn yfir.

„Eftir að hafa bjargað fjórum börnum þá höldum við leit og björgun áfram til að kanna hvort að fleiri séu í tjörninni,“ segir Harris.

Getty

Hann segir að að teknu tilliti til hitastigsins, aldurs barnanna sem við sögu komi og þess tíma sem liðinn sé frá slysinu, þá sé „ekki lengur um leitar- og björgunaraðgerð að ræða“.

Sjónarvottar segjast hafa séð slökkviliðsmenn brjóta ísinn í leitaraðgerðum sínum. Mikill fjöldi fólks á vettvangi hafi verið í miklu áfalli og hafi þrír þeirra þurft á læknisaðstoð að halda.

Ekki hafa verið gefnar nánari upplýsingar um aldur eða ástand þeirra barna sem tókst að ná úr tjörninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×