Erlent

Fyrr­verandi for­seti og vara­for­seti Gvate­mala í sex­tán ára fangelsi

Atli Ísleifsson skrifar
Otto Perez var forseti Gvatemala á árinu 2012 til 2015.
Otto Perez var forseti Gvatemala á árinu 2012 til 2015. Getty

Dómstóll í Gvatemala hefur dæmt forsetann fyrrverandi, Otto Perez, og varaforsetann Roxana Baldetti, í sextán ára fangelsi fyrir fjárkúgun og tollsvik.

Hinn 72 ára Perez neitaði sök í málinu og sagði sakfellinguna „án nokkurra sannanna“. Hann hyggst áfrýja dómnum.

Perez tók við embætti forseta Gvatemala árið 2012 en var bolað frá völdum árið 2015, fáeinum mánuðum áður en kjörtímabilið hans var á enda.

Í frétt DW segir að Perez og Baldetti hafi verið sökuð um að hafa farið fyrir hópi tollsvikara sem var sagt hafa stolið andvirði um 3,5 milljóna Bandaríkjadala úr opinberum sjóðum. Á hópurinn að hafa fyrir hönd innflytjenda staðið fyrir mútugreiðslum til að forðast greiðslu tolla.

Perez og Baldetti voru sakfelld af ákæru um fjárkúgun og tollsvik, en sýknuð af þeim ákærulið sem sneri að því að hafa auðgast persónulega á ólöglegan hátt.

Roxana Baldetti, fyrrverandi varaforseti Gvatemala.Getty

La Linea

Málið hefur gengið undir nafninu „La Linea“ í Gvatemala. Það var alþjóðleg rannsóknarnefnd, sem naut stuðnings Sameinuðu þjóðanna, sem hóf upphaflega rannsókn á málinu. Nefndin var lögð niður af þáverandi forseta, Jimmy Morales, þegar nefndin hóf rannsókn á hans málum árið 2019.

Perez hefur setið í fangelsi síðustu sjö árin á meðan dóms hefur verið beðið í málinu. Baldetti var dæmd í fimmtán ára fangelsi í öðru svikamáli árið 2018.

Perez og Bladetti var jafnframt gert að greiða háar fjárhæðir í sekt vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×