Skoðun

Af­reks­stefnu­leysi stjórn­valda

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Vorið 2021 samþykkti Alþingi tillögu mína um að mótuð yrði stefna fyrir afreksfólk í íþróttum, í samvinnu við Íþrótta- og ólympíusamband Íslands og sveitarfélög landsins. Sömuleiðis átti að tryggja fjárhagslegan stuðning við afreksfólk. Þessa stefnu átti ráðherra að leggja fram á þingi eigi síðar en 1. júní í ár.

Þar sem ekkert bólaði á stefnunni í sumar spurði ég Ásmund Einar Daðason ráðherra íþróttamála um málið í skriflegri fyrirspurn 29. september. Svarið barst 28. nóvember, heilum tveimur mánuðum síðar. Þar segir ráðherra að það sé ekki stjórnvalda að setja stefnu fyrir hönd íþróttahreyfingarinnar, það sé hlutverk Íþrótta- og ólympíusambands Íslands.

Þannig ætlar ráðherrann að koma sér frá ábyrgð sinni á skortinum á opinberri stefnumótun og fjármögnun afreksíþrótta – og koma sér hjá því að fara að vilja Alþingis sem samþykkti tillögu mína einróma. Svo er það nú þannig að tillagan mín fól í sér gerð stefnu í samvinnu við íþróttahreyfinguna. Það var líka samhljómur meðal þeirra umsagna sem bárust við, m.a. frá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands og UMFÍ, um að mikilvægt væri að frekari stefnumótun stjórnvalda færi heim og saman við þær áherslur sem íþróttahreyfingin setti fram á Íþróttaþingi ÍSÍ. Jafnframt var bent á íþróttastefnu ríkisins (!) frá maí 2019 sem fæli í sér mikla samvinnu og samráð innan íþróttahreyfingarinnar.

Auðvitað er það svo bara einskær tilviljun að á sama tíma og ég spurði ráðherra um afdrif málsins, lagði hann fram tillögu í ríkisstjórninni um skipun starfshóps með fulltrúum þriggja ráðuneyta, íþróttahreyfingarinnar og annarra sem eiga hagsmuna að gæta til að gera tillögur um úrbætur á fyrirkomulagi, löggjöf og öðru sem þurfa þykir til að koma stuðningi við afreksíþróttafólk í fremstu röð.

Sannarlega er aðalmálið hér að með samþykkt tillögunnar minnar virðist Alþingi hafa tekist að hrista svo upp í stjórnvöldum að vonast má til að almennileg, tímasett og fjármögnuð afreksstefna í íþróttum verði loks að veruleika eftir langa og stranga baráttu afreksíþróttafólksins okkar.

En mikið er þetta hallærisleg afgreiðsla hjá ráðherranum. Svo hallærisleg að það er eiginlega afrek í sjálfu sér.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×