Erlent

Evrópa of háð Banda­ríkjunum í öryggis­málum

Kjartan Kjartansson skrifar
Sanna Marin lét ummælin falla á fundi hjá áströlsku hugveitunni Lowy Institute. Hún er nú í fyrstu opinberu heimsókn finnsks forsætisráðherra til Eyjaálfu.
Sanna Marin lét ummælin falla á fundi hjá áströlsku hugveitunni Lowy Institute. Hún er nú í fyrstu opinberu heimsókn finnsks forsætisráðherra til Eyjaálfu. Vísir/EPA

Innrás Rússa í Úkraínu sýnir að Evrópulönd séu of háð Bandaríkjunum um eigið öryggi, að mati Sönnu Marin, forsætisráðherra Finnlands. Hún vill að Evrópulönd auki vopnaframleiðslu og varnarviðbúnað sinn.

„Ég ætla að vera harkalega hreinskilin við ykkur, Evrópa er ekki nógu sterk núna. Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna,“ sagði Marin á fundi hjá hugveitu í Sydney í Ástralíu þar sem hún er í opinberri heimsókn.

Bandaríkin hafi þannig útvegað Úkraínu miklu magni af vopnum og fjárhags- og mannúðaraðstoð en Evrópa hafi ekki staðið sig nægilega í stykkinu. Margir bandarískir stjórnmálamenn hafi sagt henni að Evrópa þurfi að vera sterkari, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Jafnvel þó að framlag Evrópusambandsríkja sé mun minna en Bandaríkjanna hefur gengið hratt á hergagnaforða þeirra við að leggja Úkraínumönnum lið.

„Við verðum að tryggja að við byggjum upp slíka getu þegar kemur að evrópskum vörnum, evrópskum varnariðnaði,“ sagði Marin.

Þá gagnrýndi finnski forsætisráðherrann Evrópulönd sem hefðu reynt að styrkja tengslin við Rússland á undanförnum áratugum, þar á meðal með því að kaupa orku þaðan, í þeirri von að það drægi úr líkum á stríði. Sú nálgun hafi beðið algert skipsbrot, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Frekar hefði átt að hlusta á raddir Póllands og Eystrasaltsríkja sem vöruðu við því að Rússland léti sér viðskiptatengsl og refsiaðgerðir í léttu rúmi liggja.

Marin varaði einnig við því að sigur Rússlands í Úkraínu yrði öðrum árásarhneigðum ríkjum hvatning. Lýðræðisríki ættu að forðast að verða háð einræðisríkjum eins og Kína.

„Ekki velkjast í vafa um það að ef Rússland vinnur í þessum hræðilega leik sínum þá verður það ekki eitt um valdeflast,“ sagði Marin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×