Erlent

Vilja banna kyn­líf utan hjóna­bands og móðganir gegn stjórn­völdum

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá mótmælum gegn frumvarpi að hegningarlögum í Jakarta árið 2019. Sambærilegt frumvarp var þá lagt til hliðar í skugga mótmælaöldu.
Frá mótmælum gegn frumvarpi að hegningarlögum í Jakarta árið 2019. Sambærilegt frumvarp var þá lagt til hliðar í skugga mótmælaöldu. Vísir/EPA

Borgararéttindi í Indónesíu verða skert með frumvarpi til hegningarlaga sem þingið þar er við það að samþykkja, að mati mannréttindasamtaka. Frumvarpið legði bann við kynlífi fyrir hjónaband og að móðga forseta landsins eða stofnanir ríkisins.

Aðstoðardómsmálaráðherra Indónesíu segir að frumvarpið gæti orðið að lögum um miðjan þennan mánuð. Efni þess sé í samræmi við indónesísk gildi, að því er segir í frétt The Guardian. Lögin giltu ekki aðeins um indónesíska ríkisborgara heldur erlenda ferðamenn líka.

Aðeins þröngur hópur fólks, eins og nánir ættingjar, gæti tilkynnt um ólöglegt kynlíf utan hjónabands samkvæmt frumvarpinu. Allt að árs fangelsi lægi við því að stunda slíkt kynlíf og ógiftum pörum sem yrðu uppvís að því yrði bannað að búa saman.

Mannréttindasamtök vara við því að bann við kynlífi fyrir hjónaband muni koma sérstaklega niður á samkynhneigðum pörum sem eiga ekki rétt á að giftast. Þau verði þá í aukinni hættu á að vera sótt til saka.

Aðeins forseti gæti svo kært móðganir í sinn garð. Hámarksrefsing við því væri þriggja ára fangelsi. Einnig yrði bannað að móðga stofnanir ríkisins eða tjá skoðanir sem stangast á við hugmyndafræði stjórnvalda.

Fyrri drög að frumvarpi af svipuðum meiði voru lögð á hilluna eftir fjölmenn mótmæli um landið allt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×