Erlent

Banda­ríkin og Rúss­land hafi leiðir til að höndla kjarn­orku­ógnina

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rood við réttarhöldin yfir körfuknattleikskonunni Brittney Griner.
Rood við réttarhöldin yfir körfuknattleikskonunni Brittney Griner. epa/Reuters/Evgenia Novozhenina

Það eru til staðar úrræði fyrir Bandaríkin og Rússland að draga úr áhættunni á kjarnorkustríði, hefur ríkisfréttastofan Ria Novosti eftir fulltrúa sendiherra Bandaríkjanna í Moskvu. Engir fundir um ógnina eru á dagskrá, segir hún.

Fulltrúinn, Elizabeth Rood, sagði í samtali við Ria Novosti að kjarnorkuógnin hefði verið aðalumræðuefni William Burns, forstjóra CIA, og Sergei Naryshkin, yfirmanns rússnesku leyniþjónustunnar, á fundi þeirra fyrr í mánuðinum.

Burns hefði á fundinum varað Naryshkin við afleiðingum þess að grípa til notkunar kjarnorkuvopna. Engar umræður hefðu hins vegar átt sér stað um friðarviðræður og Burns ekki rætt mögulega lausn á stöðu mála í Úkraínu.

Rússar sögðu fyrir sitt leyti að umræðuefni fundarins væri „viðkvæmt mál“ og neituðu að tjá sig.

Rood sagði að ef aðstæður kölluðu á annan fund væri mögulegt að koma honum í kring en hún vissi ekki til þess að annar fundur væri á dagskrá.

Rússar hafa sagst reiðubúnir til að eiga viðræður við Bandaríkjamenn á hærri stigum en hafa útilokað fund Vladimir Pútín Rússlandsforseta og Joe Biden Bandaríkjaforseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×