Erlent

Húsleit í rannsókn á spillingu í kringum Ólympíuleikana

Kjartan Kjartansson skrifar
Teymi saksóknara á leið inn í höfuðstöðvar Dentsu í Tókýó í morgun.
Teymi saksóknara á leið inn í höfuðstöðvar Dentsu í Tókýó í morgun. AP/Kyodo News

Saksóknarar í Tókýó gerðu húsleit hjá stórri auglýsingastofu og viðburðafyrirtæki í tengslum við rannsókn á spillingu sem er talin hafa átt sér stað í kringum Ólypmpíuleikana sem voru haldnir í borginni. Fyrirtækin eru grunuð um að hafa hagrætt útboðum sem tengdust leikunum.

Dentsu er stærsta auglýsingastofa Japans og er með yfirburðastöðu í skipulagningu viðburða, markaðssetningu og almannatengslum. Starfsmenn þess tóku þátt í landa Ólympíuleikunum í Tókýó og seldu svo auglýsingar innanlands fyrir metupphæðir, að sögn AP-fréttastofunnar.

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Dentsu hefur ítrekað verið handtekinn undanfarna mánuði en hann er sakaður um að hafa þegið mútur frá fyrirtækjum sem vildu verða styrktaraðilar leikanna.

Rannsóknin á spillingunni er nú sögð hafa teygt út anga sína og hún beinist nú einnig að því að Dentsu hafi hagrætt útboði í tengslum við tilraunaviðburði fyrir stórmótið. Níu fyrirtæki og ein samtök eru sögð tengjast málinu og 3,6 milljónir dollara, jafnvirði um 508 milljóna íslenskra króna, eru sagðir hafa skipt um hendur.

Ólympíuleikunum sem áttu að fara fram árið 2020 var frestað um eitt ár vegna kórónuveiruheimsfaraldursins. Vangaveltur eru uppi um að hneykslismálið í kringum múturnar gætu skaðað möguleika Japana á að fá vetrarólympíuleikana sem þær sækjast eftir árið 2030.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×