Viðskipti innlent

Fjöl­þættir ann­markar á Ís­lands­banka­sölunni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi.
Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi. Vísir/Vilhelm

Ríkisendurskoðun hefur lokið við skýrslu sína um söluna á Íslandsbanka og skilað til Alþingis. Skýrslan verður gerð opinber eftir fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins um hana á morgun. Í skýrslunni er fjallað um „fjölþætta annmarka“ á undirbúningi og framkvæmd sölunnar.

RÚV greindi fyrst frá því að skýrslan væri komin til þingsins. Fréttastofa hefur skýrsluna undir höndum en hún er 71 blaðsíða að lengd.

Bankasýsla ríkisins sá um sölu á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars, en í kjölfarið tilkynnti Ríkisendurskoðun að hún hefði fallist á beiðni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að gera úttekt á ferlinu. Upphaflega stóð til að skýrslan yrði tilbúin í júní á þessu ári en henni var ítrekað frestað. 

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að standa hefði þurft betur að undirbúningi og framkvæmd sölunnar. Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að meginmarkmið hennar og viðmið um framkvæmd hafi verið á reiki.

„Hugtakanotkun og upplýsingagjöf í þeim gögnum sem Bankasýslan og fjármála og efnahagsráðuneyti lögðu fyrir Alþingi voru ekki til þess fallin að draga upp skýra mynd af tilhögun söluferlisins. Þrátt fyrir reynslu og þekkingu starfsmanna og stjórnar Bankasýslunnar á sviði umsýslu og sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum bjó stofnunin ekki yfir reynslu af tilboðsfyrirkomulagi í aðdraganda sölunnar. Stofnunin var í söluferlinu öllu afar háð utanaðkomandi ráðgjöf og þekkingu,“ segir í skýrslunni. 

Þá segir að tilhlýðilegar kröfur hafi ekki verið gerðar til umsjónaraðila, söluráðgjafa og söluaðila. Vegna annmarka á framkvæmdinni hafi eftirspurn verið vanmetin við ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð í útboðinu. Eins hafi ekki verið gætt eins vel og mögulegt var að reglum um gagnsæi og hlutlægni. Útfærsla tilboðsfyrirkomulagsins hafi ekki getað tryggt fullt jafnræði þeirra fjárfesta sem því var beint að. 

Upplýsingagjöf ábótavant

Í skýrslunni kemur einnig fram það sjónarmið Ríkisendurskoðunar að upplýsa hefði þurft með afdráttarlausum hætti í minnisblaði Bankasýslunnar, greinargerð ráðuneytisins og í kynningum fyrir þingnefndum hvað fólst í settum skilyrðum um hæfa fjárfesta, sem voru þeir sem gátu tekið þátt í útboðinu.

„Með því að notast við hugtökin „hæfir fjárfestar“ eða „hæfir fagfjárfestar“ varð hætta á að nefndarmenn sem fjölluðu um málið, og aðrir sem vildu kynna sér áform um söluferlið, stæðu í þeirri trú að þar væri eingöngu um að ræða fjárfesta sem hafa að aðalstarfi að fjárfesta í fjármálagerningum. Sú upplýsingagjöf hefði þó verið þeim takmörkunum háð að þátttaka lítilla einkafjárfesta í söluferlinu kom Bankasýslunni á óvart,“ segir í skýrslunni.

Þá telur stofnunin að ráðuneytið og Bankasýslan hefðu þurft að undirbúa betur skipulagða upplýsingagjöf, sér í lagi í ljósi þess að tilboðsfyrirkomulagi hafði aldrei áður verið beitt sem söluaðferð á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtæki.

Salan hagfelld

Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að Ríkisendurskoðun dragi þó ekki í efa að fjárhagsleg niðurstaða söluferlisins hafi verið ríkissjóði almennt hagfelld. Þó sé ekki hægt að fullyrða að salan hafi verið ríkissjóði eins hagkvæm og mögulegt var. 

Lokaorð skýrslunnar eru þessi:

„Annmarkar söluferlisins sem Ríkisendurskoðun fjallar um í þessari úttekt eru fjölþættir og lúta bæði að undirbúningi og framkvæmd sölunnar. Ljóst má vera að orðsporðsáhætta við sölu opinberra eigna var vanmetin fyrir söluferlið 22. mars af Bankasýslu ríkisins, fjármála- og efnahagsráðuneyti og þingnefndum sem um málið fjölluðu í aðdraganda sölunnar.“


Tengdar fréttir

Ís­lands­banka­skýrslunni enn og aftur frestað

Afhendingu á skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka hefur verið frestað á ný. Til stóð að afhenda skýrsluna fyrir helgi en ekkert verður úr því.

Hagnaður upp á 7,5 milljarða hjá Ís­lands­banka

Hagnaður af rekstri Íslandsbanka á þriðja ársfjórðungi 2022 nam 7,5 milljörðum króna. Hreinar vaxtatekjur jukust um 28,7 prósent milli ára. Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði úr 39,4 prósentum í 36,3 prósent. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×