Bíó og sjónvarp

Skauta­höllin í banda­rískum búningi fyrir True Detecti­ve

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skautahöllin var í bandarískum búningi.
Skautahöllin var í bandarískum búningi. HBO

Tökur á sjónvarpsþáttaröðinni True Detective eru komnar á fullt hér á landi. HBO, framleiðandi þáttanna, hefur birt mynd úr Skautahöllinni í Reykjavík, þar sem sjá má hana í bandarískum búningi.

Tilkynnt var í sumar að tökur á fjórðu þáttaröð hinna feykivinsælu þátta yrði tekin upp hér á landi. Um er að ræða stærsta kvikmyndaverkefni sem tekið hefur verið upp hér á landi. Áætlaður framleiðslukostnaður er áætlaður níu milljarðar.

Það er Jodie Foster sem leikur aðalhlutverkið og hefur hún verið stödd hér á landi við tökur, sem hófust nýverið. Þannig greindi fréttastofa frá því á dögunum að Vogar á Vatnsleysuströnd hafi verið breytt í Alaska-ríki fyrir tökur á þáttaröðinni. Alaska er sögusvið þáttanna og fær Ísland hlutverk Alaska í þáttunum.

HBO hefur á undanförnum dögum verið að veita örlitla innsýn í tökurnar. Fyrirtækið birti örlítið handritsbrot úr fyrsta þættinum á Twitter í vikunni. Þar kemur fram að sögusviðið er desember-mánuður í Ennis í Alaska, 150 mílum norðan við heimskautsbauginn.

Þá hefur HBO einnig birt mynd, sem sjá má efst í fréttinni, sem bersýnilega er tekin úr Skautahöllinni í Reykjavík, þann 20. október síðastliðinn. Fréttastofa greindi frá því á dögunum til stæði að taka upp fyrir True Detective í Skautahöllinni, sem var lokuð frá 10. til 20. október síðastliðinn.

Greindi fréttastofa frá því að þau atriði sem tekin verða í höllinni gerast um jólin og hefur höllin því verið skreytt líkt og hátíð ljóss og friðar sé í gangi. Þá má sjá bandaríska fána í höllinni.

Það kemur heim og saman við myndina sem HBO hefur birt, þar sem einmitt sést glitta í jólaljós og bandaríska fánann.

Fyrirtækið True North kemur að tökunum hér á landi. Leifur Dagfinnsson, eigandi og framkvæmdastjóri True North, sagði í Kastljósi á dögunum að verkefnið væri svona tíu sinnum stærra en týpísk verkefni fyrirtækisins fyrir erlend kvikmyndatökulið.


Tengdar fréttir

Jólin koma snemma með Jodie Foster í Skautahöllinni

Jólin koma snemma í Skautahöllinni í Reykjavík í ár. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru tökur á atriðum í sjónvarpsþáttaröðinni True Detective fyrirhugaðar þar í næstu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.