Erlent

Af­hjúpuðu nýja mynd af stjörnu­verk­smiðju í til­efni af­mælisins

Kjartan Kjartansson skrifar
Keiluþokan er í um 2.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Mælitækið á VLT-sjónaukanum sem var notað til þess að taka myndina sýnir vetnisgas blátt en brennistein rauðan. Stjörnur sem eru annars bjartar og bláar virðast nærri því gylltar á myndinni.
Keiluþokan er í um 2.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Mælitækið á VLT-sjónaukanum sem var notað til þess að taka myndina sýnir vetnisgas blátt en brennistein rauðan. Stjörnur sem eru annars bjartar og bláar virðast nærri því gylltar á myndinni. ESO

Sjö ljósára langur stöpull Keiluþokunnar er viðfangsefnið á nýrri mynd sem Evrópska stjörnustöðin á suðurhveli (ESO) afhjúpaði til þess að fagna sextíu ára afmæli stofnunarinnar í dag. Stöpullinn er hluti af stærra svæði sem ungar út nýjum stjörnum.

Keiluþokan er hluti af stjörnumyndarsvæði sem kallast NGC 2264 sem er í um 2.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Það er að finna í stjörnumerkinu einhyrningnum frá jörðinni séð. Eins og áður segir að stöpullinn um sjö ljósár að hæð. Til samanburðar eru um 4,3 ljósár á milli jarðarinnar og Alfa Centauri, næsta sólkerfisins við okkar eigið.

Afmælismynd ESO er þokunni er sögð tilþrifameiri en eldri myndir þar sem hún sýni vel dimmu skuggaþokunnar sem ljós berst ekki frá.

Stöplar eins og þessi myndast í köldum gas- og rykskýjum sem þessum sem geta af sér nýjar stjörnur, að því er segir í tilkynningu frá ESO. Vindar og útfjólublá geislun frá nýjum, bláum og afar efnismiklum stjörnum feykja gasi frá næsta nágrenni sínu. Gas og ryk lengra frá stjörnunum þjappast þá saman í þétta, dimma og háa stöpla. Stefna Keiluþokunnar liggur þannig í átt frá skærum stjörnum í NGC 2264.

ESO var stofnað í október árið 1962 en sextán ríki og samstarfsaðilar eiga nú aðild að samtökunum. Þau reka meðal annars stjörnustöðvar í Síle þar sem VLT-sjónaukinn sem tók myndina af Keiluþokunni er staðsettur.


Tengdar fréttir

Webb endurgerði frægustu mynd Hubble

Hluti Arnarþokunnar sem hlaut nafnið Stöplar sköpunarinnar þegar Hubble-geimsjónaukinn gerði hann frægan fyrir meira en aldarfjórðungi er skarpari en nokkru sinni fyrr á mynd sem James Webb-geimsjónaukinn, arftaki Hubble, náði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×