Erlent

Bein útsending: Reyna að grípa eldflaug með þyrlu

Samúel Karl Ólason og Viktor Örn Ásgeirsson skrifa
Reynt verður að grípa eldflaugina með þessari þyrlu.
Reynt verður að grípa eldflaugina með þessari þyrlu. Rocket Lab

Starfsmenn fyrirtækisins Rocket Lab ætla í dag að reyna að grípa eldflaug með þyrlu. Eldflauginni verður skotið frá Nýja-Sjálandi og á hún að koma smáum gervihnetti á braut um jörðu fyrir sænskt fyrirtæki.

Fyrsta stig eldflaugarinnar, sem er af gerðinni Electron, mun bera gervihnöttinn og seinna stig eldflaugarinnar langt upp í gufuhvolfið áður en það slitnar frá seinna stiginu og fellur aftur til jarðar í fallhlíf.

Áhöfn þyrlu mun svo í kjölfarið reyna að grípa fyrsta stigið og fallhlífina í loftinu.

Sýnt verður frá geimskotinu í beinni útsendingu en skotglugginn svokallaði opnast klukkan 17:15, að íslenskum tíma.

Uppfært 18:00

Rocket Lab teymið greinir frá því að tilraunin hafi ekki tekist sem skyldi: „Því miður munum við ekki ná Electron „þurri“ til baka. Við vorum tilbúin með varaáætlun; að láta flaugina enda úti í sjó. Við látum ykkur vita hvernig gengur á næstu klukkutímum.“

Hægt er að fylgjast með því hvernig gekk hér að neðan.

Þetta verður níunda geimskot Rocket Lab á þessu ári 

Electron eldflaugarnar eru hannaðar til að bera smáa gervihnetti á tiltölulega lága sporbraut. Forsvarsmenn Rocket Lab tilkynntu þó seint í fyrra að verkfræðingar fyrirtækisins ynnu að þróun nýrrar og stærri eldflaugar sem eigi að vera endurnýtanleg og lenda á jörðinni eftir geimskot.

Sjá einnig: Rocket Lab ætlar í aukna samkeppni við SpaceX með nýrri eldflaug

Markmiðið er að fara í samkeppni við bandaríska fyrirtækið SpaceX sem hefur þróað Falcon-9 eldflaugarnar en þær eru einnig hannaðar til að lenda á jörðinni eftir geimskot og eru orðnar mjög áreiðanlegar.

Starfsmenn SpaceX framkvæmdu nýverið þeirra fimmtugasta geimskot á þessu ári.

Sjá einnig: Skutu leynilegum gervihnöttum út í geim með öflugustu eldflauginni

Hér að neðan má sjá tveggja ára gamalt 360 gráðu myndband sem sýnir hvernig starfsmenn Rocket Lab vonast til þess að grípa eldflaugina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×