Erlent

Starfs­menn Twitter fá til­kynningu um ör­lög sín nú í morguns­árið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Auglýsendur eru sagðir halda að sér höndum hvað varðar birtingar á miðlinum, nú þegar mikil óvissa er uppi um hvaða stefnu Musk tekur.
Auglýsendur eru sagðir halda að sér höndum hvað varðar birtingar á miðlinum, nú þegar mikil óvissa er uppi um hvaða stefnu Musk tekur. Getty/NurPhoto/Nikolas Kokovlis

Athafnamaðurinn og frumkvöðullinn Elon Musk, sem eignaðist Twitter á dögunum og skipaði sjálfan sig forstjóra, er sagður munu hefja umfangsmiklar uppsagnir meðal starfsmanna í dag.

Fregnir um málið byggja á tölvupósti sem fyrirtækið sendi starfsmönnum í gær, þar sem þeim var greint frá því að tilkynnt yrði um uppsagnirnar í tölvupósti. Voru þeir hvattir til að skoða póstinn sinn nú í morgunsárið og leita að efnislínunni „Staða þín hjá Twitter“.

Allir starfsmenn fyrirtækisins eru sagðir munu fá póst, bæði þeir sem missa vinnuna og þeir sem eru öruggir í bili.

Musk talaði um það áður en kaupin á fyrirtækinu gengu í gegn að hann hefði í hyggju að fækka starfsmönnum, sem telja um það bil 7.500. Fregnir herma að allt að helmingi starfsfólksins verði sagt upp.

Í tölvupóstinum í gær var starfsmönnum einnig tjáð að skrifstofur fyrirtækisins yrðu lokaðar í dag og aðgangskort gerð óvirk, „til að tryggja öryggi allra starfsmanna“ og öryggi kerfa fyrirtækisins og persónuupplýsinga notenda.

Washington Post hefur eftir heimildarmanni innan fyrirtækisins að uppsagnirnar verði þvert á deildir. Sérfræðingar og aðgerðasinnar hafa hins vegar varað við því að dregið verði úr eftirliti fyrirtækisins með ólöglegu efni og hatursorðræðu, sem grasserar á samfélagsmiðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×