Fótbolti

Pique að hætta og spilar síðasta leikinn á laugardag

Smári Jökull Jónsson skrifar
Pique leikur sinn síðasta leik fyrir Barcelona á laugardaginn.
Pique leikur sinn síðasta leik fyrir Barcelona á laugardaginn. Vísir/Getty

Gerard Pique, leikmaður Barcelona og landsliðsmaður Spánar til margra ára, tilkynnti nú rétt í þessu að hann ætli að leggja knattspyrnuskóna á hilluna og muni leika sinn síðasta leik á ferlinum á laugardaginn.

Pique hefur undanfarnar vikur verið orðaður við brottför frá Barcelona sem hann hefur leikið með nær allan sinn feril og unnið alla þá bikara sem í boði eru. Fréttir dagsins koma á óvart, sérstaklega í því ljósi að knattspyrnutímabilið er í fullum gangi. Pique hefur tekið þátt í níu af leikjum Barcelona á tímabilinu.

Barcelona er uppeldisfélag Pique og í myndbandinu sem hann birtir á Twitter síðu sinni lýsir hann ást sinni á félaginu og segir að ekki hafi komið til greina að ljúka ferlinum með öðru félagi. Pique gekk ungur að aldri til liðs við Manchester United en sneri aftur til Barcelona árið 2008. 

Pique hefur leikið 615 leiki fyrir spænska félagið og unnið með liðinu átta meistaratitla, sjö bikartitla og þrjá Meistaradeildartitla. Þá hefur hann leikið 102 landsleiki fyrir spænska landsliðið og var í sigurliði Spánverja á HM 2010 og EM 2012.

Eins og áður segir kemur fram í myndbandinu að síðasti leikur Pique verði á laugardaginn þegar Barcelona mætir Almeria á heimavelli sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×