Innlent

Drengurinn fannst sofandi í strætó

Árni Sæberg skrifar
Sporhundar eru meðal þeirra sem kallaðir hafa verið út í leitina.
Sporhundar eru meðal þeirra sem kallaðir hafa verið út í leitina. Vísir/Vilhelm

Allt tiltækt lið björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu var kallað út í kvöld í leit að sjö ára dreng í Hafnarfirði. Allt fór vel að lokum þegar drengurinn fannst sofandi um borð í strætó.

Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að drengsins hafi verið saknað frá því upp úr 16 í dag þegar hann kom ekki af íþróttaæfingu í Kaplakrika með hefðbundnum hætti þegar faðir hans kom að sækja hann.

Þá hafi lögregla verið kölluð til og reglubundin eftirgrennslan hennar hafist og þegar drengurinn fannst ekki hafi verið ákveðið að lýsa eftir honum um klukkan 19. Verið hafi verið að vinna í tilkynningu um leitina þegar hann fannst sofandi í strætisvagni klukkan 19:52.

Karen Ósk Lárusdóttir, verkefnastjóri aðgerðamála hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, staðfesti í samtali við Vísi að allt tiltækt lið björgunarsveita hefði verið kallað út. Hún sagði um klukkan hálf átta leitina vera skammt á veg komna og verið væri að kalla út mannskap. Þó hafi nokkrir leitarhópar komnir af stað, þar á meðal hópur sporhunda.

„Við köllum alltaf út fleiri en færri þegar börn eiga í hlut,“ sagði Karen Ósk í samtali við Vísi.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×