Innlent

Eins umhverfisvænn bílabruni og hægt er

Bjarki Sigurðsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Jens Heiðar Ragnarsson, slökkviliðsstjóri Akraness og Hvalfjarðarsveitar.
Jens Heiðar Ragnarsson, slökkviliðsstjóri Akraness og Hvalfjarðarsveitar.

Jens Heiðar Ragnarsson, slökkviliðsstjóri Akraness og Hvalfjarðarsveitar, segir bílabrunann sem varð á gámasvæði Terra rétt fyrir utan Akranes í dag vera eins umhverfisvænan og hægt er. Stillt veður hefur komið í veg fyrir að reykur leggist yfir bæinn. 

Í dag varð mikill bruni á gámasvæði Terra rétt norðan við Akranes. Kviknað hafði í einu bílhræi og ekki tókst að slökkva eldinn í því í tæka tíð. Eldurinn breiddist því út í nærliggjandi bílhræ og úr varð mikill bruni. 

Í samtali við fréttastofu segir Jens Heiðar Ragnarsson, slökkviliðsstjóri Akraness- og Hvalfjarðarsveitar að slökkvistarf hafi gengið vel. Búið er að slökkva eldinn. Aðspurður segir hann það ekki vera gott að fá mengun frá bílabrunanum í andrúmsloftið. 

„Þessir bílar voru tilbúnir til flutnings. Það var búið að taka alla hjólbarða, allt eldsneyti, olíu og rafgeyma úr bílunum. Þeir voru eins umhverfisvænir og þeir geta verið,“ segir Jens. 

Slökkviliðið, í samstarfi við Heilbrigðiseftirlitið og lögregluna, vaktar nú hvernig reykurinn hagar sér og hvort hann muni leggjast yfir bæinn.

„Ég veit að bærinn er búinn að senda út tilkynningu um að fólk hugi að sér. Eins og er þá er frekar stillt veður þannig það virðist ekki hafa farið mikill reykur yfir bæinn,“ segir Jens. 

Ekki myndaðist nein hætta við brunann en gámasvæði Terra er lokað svæði. Því var enginn þar nema þeir sem vinna þar eða voru að koma með efni til endurvinnslu. Svæðinu var lokað um leið og eldurinn kom upp. 

Slökkviliðsmenn verða á svæðinu eitthvað fram eftir kvöldi að ganga frá vettvanginum. Þá segir Jens að líklega verði einhverjir að vakta svæðið í nótt. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×