Innlent

Hyggjast rukka í stæði í fyrsta sinn í Reykja­nes­bæ

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Skipulagsfulltrúi Reykjanesbæjar lagði fram drög að stofnun bílastæðasjóðs á fundi umhverfis- og skipulagsráðs á föstudaginn.
Skipulagsfulltrúi Reykjanesbæjar lagði fram drög að stofnun bílastæðasjóðs á fundi umhverfis- og skipulagsráðs á föstudaginn. Vísir/Þorgils

Skipulagsfulltrúi Reykjanesbæjar hefur lagt fram drög að stofnun bílastæðasjóðs í Reykjanesbæ. Með stofnun sjóðsins verður því rukkað í bílastæði í fyrsta sinn í sveitarfélaginu. Formaður umhverfis- og skipulagsráðs telur að samstaða sé um málið.

Bílastæðasjóður mun eðli málsins samkvæmt einnig hafa heimildir til að sekta þá sem ekki greiða í stæði. Nái tillagan fram að ganga verður skipulag sjóðsins líklega svipað og í öðrum sveitarfélögum, að sögn Róberts Jóhanns Guðmundssonar formanns umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar.

„Það hefur aldrei verið rukkað í bílastæði í Reykjanesbæ. Þetta eru svona frumdrög, við erum að byrja að kynna okkur þetta,“ segir Róbert Jóhann í samtali við fréttastofu.

Hann hefur ekki trú á því að Reykjanesbær rukki í bílastæði strax á þessu ári en telur líklegt að gjaldtakan komi til framkvæmda á því næsta.

„Nú fór þetta fyrir umhverfis- og skipulagsráð á föstudaginn og þetta á eftir að fara fyrir bæjarstjórnarfund sem verður eftir viku. Eftir bæjarstjórnarfundinn fer kannski eitthvað að skýrast í þessum efnum,“ segir Róbert Jóhann.

Hann segir ýmsar ástæður búa að baki fyrirhugaðri stofnun bílastæðasjóðs en telur að þörf sé á gjaldtökunni. Aðspurður um hve dýrt verði að leggja ítrekar hann að um frumdrög sé að ræða. Tiltekin fjárhæð eða gjöld hafi ekki verið rædd og verið sé að skoða málið. 

„Ég geri alveg ráð fyrir því að það sé vilji allra ráðsmanna að skoða þetta eins og þessi stærri bæjarfélög hafa verið að gera. En þetta er það fyrsta sem kemur og við erum bara að fikra okkur áfram í þessu,“ segir Róbert Jóhann Guðmundsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×