Umfjöllun og viðtal: ÍR - Stjarnan 80-92 | Stjarnan aftur á sigurbraut

Andri Már Eggertsson skrifar
Robert Turner og Ragnar Örn í leik kvöldsins
Robert Turner og Ragnar Örn í leik kvöldsins Vísir/Bára Dröfn

Stjarnan komst aftur á sigurbraut í Subway deildinni eftir tólf stiga sigur á ÍR 80-92. Stjörnumenn byrjuðu leikinn illa og voru fjórum stigum undir í hálfleik. Það var hins vegar allt annað Stjörnulið sem mætti í seinni hálfleik þar sem Stjarnan sýndi klærnar og rúllaði yfir ÍR. 

Heimamenn byrjuðu betur og voru með yfirhöndina í fyrsta leikhluta. ÍR setti niður sex þrista í fyrsta leikhluta. Stjarnan hitti illa í fyrsta leikhluta og var aðeins með 35 prósent skotnýtingu. Luciano Nicolas Massarelli átti lokasókn ÍR í fyrsta leikhluta þegar staðan var jöfn 24-24. Lucaino dansaði framhjá varnarmönnum Stjörnunnar, setti niður sniðskot og fékk körfu góða.

Luciano Nicolas Massarelli gerði níu stig í kvöldVísir/Bára Dröfn

ÍR byggði ofan á góðan lokakafla í fyrsta leikhluta og voru heimamenn átta stigum yfir 39-31 þegar tæplega fimmtán mínútur voru liðnar af leiknum. ÍR hélt áfram að setja niður þriggja stiga skot og gerði Ragnar Örn Bragason síðustu körfu fyrri hálfleiks þegar hann setti niður þrist sem kveikti í áhorfendum. Staðan í hálfleik var 46-41.

Það voru þó nokkrir leikmenn Stjörnunnar sem voru ekki að finna sig í fyrri hálfleik. Júlíus Orri Ágústsson tók fimm skot. Arnþór Freyr Guðmundsson tók fjögur skot og hitti ekki úr einu og Kristján Fannar Ingólfsson hitti úr einu skoti í fjórum tilraunum.

Sæþór Elmar og Collin Pryor í leik kvöldsinsVísir/Bára Dröfn

Stjarnan beit frá sér strax í upphafi seinni hálfleiks. Gestirnir byrjuðu á 1-10 áhlaupi og komust yfir þegar tæplega fjórar mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta. Ísak Wíum, þjálfari ÍR, tók leikhlé í stöðunni 47-50. Stjarnan vann þriðja leikhluta með tíu stigum og var með fimm stiga forystu þegar haldið var í síðasta fjórðung.

Sæþór Elmar og Hlynur Bæringsson í baráttunniVísir/Bára Dröfn

Stjarnan gerði fyrstu þrettán stigin í fjórða leikhluta og einfaldlega kláruðu leikinn. Heimamenn reyndu að stöðva áhlaup Stjörnunnar með því að taka leikhlé en ekkert breyttist. Heimamenn komust loksins á blað eftir tæplega fjórar mínútur en skaðinn var skeður. Stjarnan vann að lokum tólf stiga sigur 80-92. 

Þetta var annar sigur Stjörnunnar í Subway deildinniVísir/Bára Dröfn

Af hverju vann Stjarnan?

Það vantaði þrjá byrjunarliðsmenn í ÍR sem gerði heimamönnum afar erfitt fyrir. Stjarnan fór illa með ÍR undir körfunni og tók 34 fráköstum meira en ÍR. 

Stjarnan byrjaði fjórða leikhluta á að gera þrettán stig í röð og þá var leikurinn búinn. 

Hverjir stóðu upp úr? 

Robert Turner og Adama Darbo gerðu samanlagt 43 stig og voru máttarstólparnir í sóknarleik Stjörnunnar. 

Hlynur Bæringsson var allt í öllu hjá Stjörnunni. Hlynur gerði 15 stig, tók 10 fráköst og þar af sjö sóknarfráköst.

Hvað gekk illa?

ÍR var í miklum vandræðum með frákastabaráttuna. ÍR tók aðeins 29 fráköst sem var 34 fráköstum minna en Stjarnan. Gestirnir fengu alltaf nokkur tækifæri í sömu sókninni þar sem Stjarnan tók 24 sóknarfráköst.

Hvað gerist næst?

Næsta fimmtudag mætast Grindavík og ÍR klukkan 18:15. Tveimur klukkutímum seinna mætast Stjarnan og Njarðvík.

Ísak: Mennirnir sem við gáfum skotin fóru að hitta í seinni hálfleik

Ísak Wíum á hliðarlínunni í leik kvöldsinsVísir/Bára Dröfn

Ísak Wíum, þjálfari ÍR, var svekktur eftir tap kvöldsins.

„Í fyrri hálfleik var varnarleikurinn góður og á þeim stað sem við vildum. Sóknarlega náðum við að halda leiknum á þeim hraða sem við vildum miðað við mannskap. Ég sagði við strákana í hálfleik að það væri galið að við værum yfir miðað við frákastabaráttuna sem sagði samt til um hversu varnar og sóknarleikurinn var góður,“ sagði Ísak um fyrri hálfleik ÍR.

Stjarnan spilaði hins vegar töluvert betur í seinni hálfleik sem skilaði sér í tólf stiga sigri Stjörnunnar.

„Mennirnir sem við vorum að gefa skotin hittu betur í seinni hálfleik og við gátum ekki stoppað Stjörnuna í fráköstunum. Það vinnur ekkert lið leik þegar frákastabaráttan endar 29-63.“

Ísak hrósaði þeim sem spiluðu stærra hlutverk en oft áður þar sem það vantaði þrjá byrjunarliðsmenn í liðið.

„Ég held að ég sé með mestu breiddina í deildinni þegar að kemur að leikmönnum 9-12 og þetta eru allt uppaldir ÍR-ingar. Ef þetta er það sem við höfum upp á að bjóða þegar menn meiðast þá hef ég ekki miklar áhyggjur,“ sagði Ísak Wíum að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira