Erlent

Orðin að þjóð­hetju eftir heim­komuna

Bjarki Sigurðsson skrifar
Elnaz Rekabi er mætt aftur til Íran.
Elnaz Rekabi er mætt aftur til Íran. IRNA

Elnaz Rekabi sneri aftur til Íran snemma í morgun eftir að hafa keppt á Asíumótinu í klifri. Rekabi notaðist ekki við slæðu þegar hún keppti og óttuðust margir um líf hennar um tíma.

Í gær var greint frá því að fjölskylda Rekabi hafi ekki heyrt frá henni í rúman sólarhring eftir að hún keppti án slæðunnar á sunnudag. Óttuðust einhverjir að henni hafi verið refsað fyrir uppátæki sitt en mikil mótmæli hafa verið í Íran eftir að hin 22 ára Mahsa Amini lést í haldi siðgæðislögreglunnar þar í landi. Amini hafði verið handtekin einmitt fyrir að notast ekki við slæðu þegar hún var á almannafæri.

Rekabi birti seint í gærkvöldi yfirlýsingu þar sem hún útskýrði að klúturinn hafi fallið af höfði hennar og hún ekki getað sett hann aftur á áður en hún keppti. Einhverjir telja að Rekabi hafi verið þvinguð til að skrifa yfirlýsinguna.

Í morgun mætti Rekabi aftur til Íran eftir að hafa dvalið í sendiráði ríkisins í Suður-Kóreu þar sem mótið fór fram. Stór hópur fólks kom saman á flugvellinum í Teheran, höfuðborg Íran, til að taka á móti Rekabi. Henni var fagnað ákaft við komuna og hún sögð vera hetja.

Myndband af heimkomu hennar var birt í írönskum fjölmiðlum í morgun. Hún fékk blóm frá aðdáanda og endurtók síðan það sem stóð í yfirlýsingunni sem kom út í gær. Í myndbandinu er hár hennar hulið með hettupeysu.


Tengdar fréttir

Finnst ekki tveimur dögum eftir að hafa keppt án slæðu

Íranska klifurkonan Elnaz Rekabi er nú horfin, tveimur dögum eftir að hafa keppt á klifurmóti í Suður-Kóreu án þess að nota slæðu. Fjölskylda hennar hefur ekki náð sambandi við hana síðan í gær.

Rekabi hafi mögu­lega verið þvinguð til þess að skrifa til­­­kynninguna

Íranska klifurkonan Elnaz Rekabi hefur gefið frá sér tilkynningu þar sem hún virðist útskýra af hverju hún bar ekki höfuðklút á meðan hún keppti á Asíumótinu í klifri í Suður-Kóreu á dögunum. Hún hafi beðist afsökunar á því að valda fólki áhyggjum en fjölskyldu hennar hafði ekki tekist að ná sambandi við hana síðan í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×