Erlent

Bakkaði ó­vart á elsta klósett Japan

Bjarki Sigurðsson skrifar
Klósettið er í Tofukuji-hofinu í Kyoto.
Klósettið er í Tofukuji-hofinu í Kyoto. EPA/Dai Kurokawa

Starfsmaður samtaka sem sjá um minjavarðveislu í Kyoto í Japan bakkaði óvart bifreið sinni á elsta klósett landsins. Klósettið, sem er um fimm hundruð ára gamalt, verður í viðgerð næstu mánuði.

Elsta klósett Japan er staðsett í Tofukuji-hofinu í Kyoto. Klósettið er frá Muromachi-tímabilinu en samkvæmt grein The Guardian var það notað af munkum í þjálfun.

Starfsmaður samtakanna var að yfirgefa hofið þegar atvikið átti sér stað. Hann hafði bakkað í stæði sitt og ætlað að keyra af stað. Hann gleymdi þó að taka bílinn úr bakkgír og bakkaði því inn í hofið og beint á klósettið. Enginn var inni í hofinu þegar atvikið átti sér stað.

Sérfræðingar hafa sagst geta lagað klósettið en það mun taka rúmlega tvo mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×