Erlent

Telja sig hafa gómað rað­morðingjann

Árni Sæberg skrifar
Stanley McFadden lögreglustjóri greindi frá handtökunni á blaðamannafundi í dag.
Stanley McFadden lögreglustjóri greindi frá handtökunni á blaðamannafundi í dag. AP Photo/Rich Pedroncell

Lögreglan í Stockton í Kaliforníu tilkynnti í dag að hún hefði handtekið mann sem grunaður er um sex morð á síðustu þremur mánuðum.

Stockton er í miðju Kaliforníu-ríki, rétt austan við San Francisco og sunnan við Sacramento. 320 þúsund manns búa í borginni, aðeins færri en á Íslandi. Raðmorðingi hefur herjað á íbúana síðustu þrjá mánuði. Sex karlmenn hafa verið skotnir til bana og ein kona særð.

Nú telur lögreglan í Stockton að raðmorðinginn sé Wesley Brownlee. Hann var handtekinn í gær. Í frétt AP um málið segir að Brownlee hafi verið að leita að næsta fórnarlambi að næturlagi klæddur svörtum fötum. Lýst hafði verið eftir svartklæddum manni með grímu og hundruð íbúa tilkynntu grunsamlegar mannaferðir.

Á blaðamannafundi sagði Stanley McFadden, lögreglustjóri Stockton, að ábendingar almennings hafi leitt til handtöku Brownlees, sem er á fimmtugsaldri.

Á sama blaðamannafundi sagði Kevin Lincoln, borgarstjóri Stockton, að hann hefði grátið gleðitárum þegar hann frétti af handtöku Brownlees. 

„Borgin gat sofið örlítið betur í nótt. Enginn borgari ætti að þurfa að líta aftur fyrir sig á gangi um borgina vegna ótta,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×