Erlent

Ekki á þeim buxunum að greiða milljarðinn sem hann skuldar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Alex Jones virðist ekki hafa mikinn áhuga á því að greiða það sem hann skuldar.
Alex Jones virðist ekki hafa mikinn áhuga á því að greiða það sem hann skuldar. Joe Buglewicz/Getty Images

Bandaríski samsæriskenningasmiðurinn Alex Jones virtist gefa það til kynna að enginn möguleiki væri á því að hann myndi greiðar gríðarlega háar skaðabætur sem hann var dæmdur til að greiða fjölskyldum fórnarlamba skotárásarinnar í Sandy Hook.

Í gær komst kviðdómur að þeirri niðurstöðu að Jones þyrfti að greiða fjölskyldunum 965 milljónir dollara, nærri 140 milljarða króna, í skaða- og miskabætur vegna staðhæfinga Jones um að skotárásin mannskæða hafi verið tilbúningur.

Þann 19. september árið 2012 voru tuttugu börn á aldrinum fimm til tíu ára skotin til bana auk sex starfsmanna skólans.

Hann hefur ítrekað verið sakaður um að valda foreldrum skaða með áróðri sínum og samsæriskenningum um fjöldamorðið sem spanna árabil. Hélt hann því ítrekað fram að fjöldamorðið hafi verið sviðsett og að foreldrar barnanna væru leikarar á vegum stjórnvalda.

Foreldrar margra barna sem létust hafa lýst viðstöðulausu áreiti af hálfu fylgjenda Jones og áhorfenda á sjónvarpsstöð hans, Infowars.

Þrátt fyrir að hafa verið skikkaður til að greiða 965 milljónir dollara vegna málsins virðist Jones ekki hafa af því teljandi áhyggjur, ef marka má fas hans í þætti hans þar sem hann brást við niðurstöðu dómsmálsins.

„Þetta er ekki að fara að gerast, engir peningar,“ hefur fréttaveitan AP eftir Jones. Í þættinum hvatti hann áhorfendur til að senda inn framlög og kaupa varning til stuðnings honum.

Lögmenn fjölskyldna barnanna sem fórust hafa sagt að Jones sé fjáður og hafi vel efni á því að greiða í það minnsta einhvern hluta skaðabótanna. Hagfræðingur hefur metið það að Jones sitji á eignum að virði 270 milljónir dollara. Þá er talið að hann hagnist um fimmtíu milljónir dollara árlega í gegnum Infowars-veldi hans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×