Erlent

Ekki dæmdur til dauða fyrir árásina í Parkland

Samúel Karl Ólason skrifar
Nikolas Cruz í dómsal í gær.
Nikolas Cruz í dómsal í gær. AP/Amy Beth Bennett

Kviðdómendur hafa komist að þeirri niðurstöðu að Nikolas Cruz, sem myrti sautján manns í skóla í Parkland í Flórída árið 2018, eigi ekki að vera tekinn af lífi. Þetta var gert opinbert rétt í þessu en saksóknarar höfðu farið fram á dauðadóm eftir að Cruz, sem er fæddur árið 1998, játaði ódæðið í Marjory Stoneman Douglas-skólanum.

Uppfært: Upprunalega stóð í fréttinni að Cruz hefði verið dæmdur til dauða. Það var rangt en fréttin hefur verið uppfærð.

Ári áður en Cruz framdi fjöldamorðið, þann 14. febrúar 2018, hafði hann verið rekinn úr skólanum. Cruz notaði byssu af gerðinni AR-15 til að skjóta fjórtán nemendur og þrjá starfsmenn skólans til bana. Hann særði þar að auki sautján til viðbótar.

Réttarhöldin gegn Cruz hafa staðið yfir í þrjá mánuði en það tók kviðdómendur tvo daga að komast að þessari niðurstöðu. Vegna þess að kviðdómendur komust ekki að samróma niðurstöðu um dauðadóm og lögðu til að Cruz yrði dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Ár er liðið frá því Cruz játaði sekt sína og sagðist hann hafa ákveðið að gera árásina á Valentínusardag svo nemendur skólans gætu aldrei haldið upp á þann dag aftur.

Sjá einnig: Park­land-fjölda­morðinginn játar sekt

Verjendur hans héldu því fram óhófleg drykkja móður Cruz hefði leitt til þess að hann væri með taugaveiki og það hefði að endingu leitt til árásarinnar. Saksóknarar sögðu það ekki rétt og notuðu meðal annars myndbönd af Cruz meðhöndla hálf sjálfvirkan riffil sinn við árásina og hlaða hann til marks um að Cruz væri ekki veikur á nokkurn hátt.

Hér að neðan má sjá þegar kviðdómendur lásu upp niðurstöðu sína í dómsal í dag.

AP segir fjöldamorðið í Parkland það mannskæðasta sem ratað hafi í dómstóla í Bandaríkjunum hingað til. Níu mannskæðari fjöldaskotárásir hafi verið framdar þar í landi en í flestum tilfellum hafi árásarmennirnir svipt sig lífi eða verið felldir af lögregluþjónum.

Réttarhöld gegn manni sem myrti 23 í Walmart í El Paso í Texas árið 2019 eru ekki hafin enn. Hann stendur einni frammi fyrir dauðadómi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×