Innlent

Vatns­yfir­borð í Gígju­kvísl hækkað um rúma þrjá­tíu senti­metra

Atli Ísleifsson skrifar
Reiknað er með að hlaupið nái hámarki í Gígjukvísl síðar í dag. Myndin er tekin þegar flogið var yfir Grímsvötn í lok síðasta árs.
Reiknað er með að hlaupið nái hámarki í Gígjukvísl síðar í dag. Myndin er tekin þegar flogið var yfir Grímsvötn í lok síðasta árs. Vísir/RAX

Yfirborð Gígjukvíslar hefur hækkað um 30 til 35 sentimetra vegna hlaupsins úr Grímsvötnum en reiknað er með að rennslið nái hámarki síðar í dag. Íshellan hefur sigið um ellefu metra samkvæmt mælingum Veðurstofunnar.

Þetta segir Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við fréttastofu. Hann segir að rennslið í Gígjukvísl hafi hækkað jafnt og þétt frá því síðdegis í gær. 

„Við eigum nú ekki endilega von á að það muni hækka mikið meira. Við reiknum með að það nái hámarki síðar í dag, en við verðum bara að sjá til hvernig málin þróast,“ segir Bjarki. Mannvirki eru ekki talin vera í hættu þar sem um lítið hlaup er að ræða.

Hann segir að haldinn verði stöðufundur hjá Veðurstofunni vegna málsins klukkan níu og að vatnamælingamaður frá Veðurstofunni verði svo sendur austur síðar í dag.

Hann segir að ekki sé neinn gosórói í Grímsvötnum, en að þó mælist svokallaður hlaupórói. Fáir skjálftar hafa mælist og þá mælist ekkert gas á svæðinu.

Fyrir hlaup var vatnsstaða lág í Grímsvötnum og því er von á litlu hlaupi, um fimm hundruð rúmmetrar á sekúndu, eða tæplega fimmtungi á við síðasta hlaup í desember á síðasta ári.

Talið sé að ef vötnin tæmist alveg geti íshellan sigið um tíu til fimmtán metra í heildina, en Bjarki segir að Grímsvötn séu nú þegar á góðri leið með að tæmast þar sem íshellan hafi nú þegar lækkað um ellefu metra.


Tengdar fréttir

Rennslið nær há­marki á fimmtu­dags­kvöld

Rennslið úr Grímsvötnum mun ná hámarki annað kvöld eða aðfaranótt föstudags. Áfram er reiknað með því að hámarksrennsli verði um 500 rúmmetrar á sekúndu. Rennslið við brúna yfir Gígjukvísl mun jafnast á við mikið sumarrennsli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×