Erlent

Æfðu notkun kjarnavopna til að „gereyða“ óvinunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Norðurkóreskir ríkisfjölmiðlar birtu myndir af Kim Jong-un einræðisherra hafa „umsjón“ með eldflaugatilraunum.
Norðurkóreskir ríkisfjölmiðlar birtu myndir af Kim Jong-un einræðisherra hafa „umsjón“ með eldflaugatilraunum. AP/KCNA

Stjórnvöld í Pjongjang í Norður-Kóreu staðfesta að nýlegar eldflaugatilraunir þeirra hafi verið æfing í notkun skammdrægra kjarnavopna gegn suður-kóreskum og bandarískum skotmörkum. Kim Jong-un, einræðisherra landsins, boðar frekari slíkar tilraunir.

Norðurkóreumenn hafa sjö sinnum skotið eldflaugum á loft í kringum nýlegar heræfingar Bandaríkjamanna og Suðurkóreumanna. Norðamenn líta á slíkar æfinar sem undirbúning fyrir innrás.

Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu héldu því fram í dag að eldflaugarskotin hafi verið liður í hermun á kjarnavopnaárásum. Herinn hafi komið gervikjarnaoddum fyrir í eldflaugunum.

Hermunin hafi verið á árásum á herstöðvar, hafnir og flugvelli sunnan landamæranna. Æfingarnar hafi verið viðvörun fyrir bandarísk og suðurkóresk stjórnvöld og þær sýni að Norðurkóreumenn geti gereytt skotmörkum hvar sem er og hvenær sem er.

Tilkynningin var send út á sjötugasta og sjöunda afmælisdegi Verkamannaflokks Norður-Kóreu. AP-fréttastofan segir að hún hafi verið liður í að styrkja ímynd Kim sem sterks leiðtoga á sama tíma og landið glímir við erfiðleika vegna kórónuveirufaraldursins.

Norðurkóreumenn eru nú sagðir undirbúa fyrstu tilraunir sínar með kjarnavopn í fimm ár. Þeir gætu einnig reynt að prófa skammdræga kjarnaodda sem hægt er að nota til að skjóta stýriflaugum á vígvelli, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Kim lét breyta lögum um notkun kjarnavopna í síðustu viku. Nú má hann nota kjarnavopn að fyrrabragði en samkvæmt eldri lögum mátti aðeins beita þeim til að verjast árás.


Tengdar fréttir

Flugu herþotum að Suður-Kóreu

Tólf herþotum var flogið frá Norður-Kóreu að landamærum Suður-Kóreu í morgun. Í suðri voru þrjátíu orrustuþotur sendar til móts við hinar en mikil spenna er á svæðinu vegna ítrekaðra eldflaugaskota frá Norður-Kóreu síðustu daga og heræfinga í Suður-Kóreu.

Segist aldrei ætla að gefa frá sér kjarnorkuvopnin

Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, lýsti því yfir í morgun að hann ætlaði aldrei að láta kjarnorkuvopn sín af hendi. Hann sagði að Bandaríkjamenn vildu ekki eingöngu að hann gæfi frá sér vopnin, heldur vildu þeir koma honum frá völdum.

Eld­flauga­skot Norður-Kóreu­manna ó­á­sættan­leg

Norður-Kóreumenn skutu tveimur skammdrægum eldflaugum á loft í dag. Eldflaugarnar höfnuðu úti í sjó milli Norður-Kóreu og Japan og drifu um 350 kílómetra langt. Japanir segja tilraunirnar óásættanlegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×