Innlent

Taka þurfi á upplýsingaóreiðu um hinsegin fólk: „Við verðum að fá allt samfélagið með okkur“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Daníel Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78, segir upplýsingaóreiðu hafa gríðarlega skaðleg áhrif á hinsegin fólk og stuðla að hatursáróðri. 
Daníel Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78, segir upplýsingaóreiðu hafa gríðarlega skaðleg áhrif á hinsegin fólk og stuðla að hatursáróðri. 

Starfshópur forsætisráðherra gegn hatursorðræðu kemur til með að skila niðurstöðum sínum fyrir lok árs en framkvæmdastjóri Samtakanna 78 segir upplýsingaóreiðu þeirra helsta óvin um þessar mundir. Stjórnvöld geti gert meira til að bregðast við og samfélagið allt þurfi að taka þátt. 

Formaður starfshópsins greindi frá því í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að hópurinn hafi rætt við fulltrúa á þriðja tug hagsmunasamtaka á síðustu vikum og að full ástæða væri til að halda vinnunni áfram út frá því sem kom þar fram.

Meðal þeirra samtaka sem hópurinn ræddi við voru Samtökin 78 en Daníel Arnarsson, framkvæmdastjóri samtakanna, segir að fyrst og fremst þurfi að skilgreina hvað felist í hatursorðræðu en engin alþjóðleg skilgreining sé í raun til staðar.

„Það er mjög erfitt að skilgreina þetta og í rauninni ef við erum að fara í einhvers konar vitundarvakningu eða ef við ætlum að fara í lagabreytingar eða eitthvað annað, þá þurfum við öll að koma okkur niður á einhverja skilgreiningu, hvað er hatursáróður og hatursglæpur,“ segir Daníel.

Að hans sögn má skipta hatursáróðri í tvo flokka, annars vegar beinan hatursáróður þar sem andúð gegn ákveðnum hóp er lýst með berum orðum, og hins vegar upplýsingaóreiðu. Hann tekur sem dæmi viðtal sem Mannlíf birti um helgina við einstakling sem sagðist hafa reynslu af því að vinna með trans fólki og gagnrýndi harðlega kynleiðréttingar trans barna.

„Síðan les þetta einhver einstaklingur og byrjar að spyrja spurninga um einhvern ákveðinn hóp og jafnvel tilvistarétt þeirra. Þetta er í rauninni grunnurinn að hatursáróðri, það er þessi upplýsingaóreiða sem er svo erfitt að einhvern veginn standa á móti eða vinna gegn,“ segir Daníel.

Samfélagið þurfi að standa í lappirnar

Í kringum Hinsegin daga hafi þau séð beinan hatursáróður eða ógn við hinsegin samfélagið þar sem greint var frá því að gelt hafi verið á hinsegin fólk, hinsegin fánar skornir niður og hinsegin ungmennum sagt að drepa sig. 

„Þetta er barátta á hverjum einasta degi og þetta er vinna á hverjum einasta degi og við verðum að fá allt samfélagið með okkur til að sporna gegn þessu. Að bregðast við þegar við heyrum að einhver ákveðinn hópur er talaður niður, þá þurfum við að standa í lappirnar og segja: Svona gerum við ekki, við viljum ekki vera svona samfélag,“ segir Daníel.

Íslandi hefur oft verið hampað fyrir árangur í málefnum hinsegin einstaklinga og miðillinn Pink News fjallaði til að mynda á dögunum um nýja stefnu íslenskra stjórnvalda í hinsegin málum. Daníel segir þó meira þurfa til.

„Það er margt að gerast núna en á sama tíma þá er þjónusta við þennan hóp í algjöru lágmarki og í rauninni þekkingin er í algjöru lágmarki hjá stjórnkerfinu. Þannig að þau eiga að efla félagasamtök kannski fyrst og fremst og líka að einstaklingarnir fái til dæmis heilbrigðisþjónustu, það skiptir sköpum núna,“ segir hann.

Kjörið tækifæri fyrir Alþingi til að bregðast við

Þá séu þau uggandi yfir þróuninni erlendis þar sem hægri flokkar hafa verið að sækja í sig veðrið en hér á landi sé fólk í ákveðinni forréttindastöðu þar sem allir stjórnmálaflokkar, að einum undanskildum, styðji réttindi hinsegin fólks. Það sé kjörið tækifæri fyrir til að mynda Alþingi að koma saman og koma á fót metnaðarfyllri áætlunum.

„Til að bregðast við öllum þessum teiknum og merkjum um að það ólgi eitthvað undir niðri. Þannig þau geta gert meira því að viljinn er algjörlega til staðar hjá öllum stjórnmálaflokkum, nema þessum eina. Þannig að tíminn er núna,“ segir Daníel.

Til þess þurfi samfélagið allt sömuleiðis að standa saman en Daníel segir flesta líklega vilja búa í samfélagi þar sem allir geta lifað opnu og frjálsu lífi án þess að eiga á hættu að verða fyrir áreiti.

„Ég held að langflestir landsmenn vilji það en þá verðum við líka að vera tilbúin til þess að taka eftir þessari upplýsingaóreiðu og taka eftir tóninum sem er oft gefinn,“ segir hann. „Við erum að tala um hóp fólks sem er til, hann er þarna, hann er ekki að fara neitt, hann hefur alltaf verið þarna. Það er bara okkar að veita sýnileikann og veita réttindin og það gerum við bara saman.“


Tengdar fréttir

Hin­segin fólk á­hyggju­fullt vegna bak­slags

Gríðarlegur fjöldi var saman kominn í Gleðigöngunni í miðbæ Reykjavíkur til að fagna fjölbreytileikanum. Hinsegin fólk segir að mæting sé til marks um samstöðu þrátt fyrir mikið bakslag í þjóðfélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×