Innlent

Beitti seljanda loft­riffils raf­vopni

Atli Ísleifsson skrifar
Hin ólöglegu vopnaviðskipti áttu sér stað í umdæmi lögreglustöðvar 2, það er í Hafnarfirði eða Garðabæ, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Hin ólöglegu vopnaviðskipti áttu sér stað í umdæmi lögreglustöðvar 2, það er í Hafnarfirði eða Garðabæ, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu handtók í gærkvöldi tvo vegna brota á vopnalögum þar sem maður hafði ætlað að selja öðrum loftriffil. Kaupandinn hafði þar reynt að hafa af riffillinn af seljandanum án þess að greiða fyrir og beitt viðkomandi rafvopni (tazer).

Frá þessu segir í dagbók lögreglu þar sem farið er yfir verkefni gærkvöldsins og næturinnar. Ekki segir hvar nákvæmlega mennirnir voru handteknir, nema að það hafi verið í umdæmi lögreglustöðvar 2 sem nær yfir Hafnarfjörð og Garðabæ.

Báðir mennirnir hafa verið kærðir fyrir brot á vopnalögum sem og fyrir að beita hvorn annan ofbeldi eða hótun um ofbeldi. Þá segir að málið hafi verið leyst með skýrslutökum og því var hvorugur mannanna vistaður í fangageymslu. Málið er sagt virðast vera upplýst, en vopnin voru bæði haldlögð.

Í dagbók lögreglu segir ennfremur að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu vegna húsbrots og skemmdarverka í miðborg Reykjavíkur, en fram kemur að lögregla sé með upplýsingar um hverjir hafi þar verið að verki.

Þá segir frá því að í miðborg Reykjavíkur hafi verið tilkynnt um innbrot þar sem rafhlaupahjóli var stolið og er málið í rannsókn. Sömuleiðis var tilkynnt um mann að hóta starfsfólki verslunar í miðborg Reykjavíkur, en maðurinn var farinn þegar lögregla kom á vettvang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×