Fótbolti

Markaskorarinn Mikael: Ég hafði engu að tapa í kvöld

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mikael Anderson reyndist hetja Íslands í kvöld.
Mikael Anderson reyndist hetja Íslands í kvöld. Jonathan Moscrop/Getty Images

Mikael Neville Anderson skoraði jöfnunarmark Íslands á sjöttu mínútu uppbótartíma er íslenska karlalandsliðið í fótbolta gerði 1-1 jafntefli gegn Albaníu í lokaleik riðilsins í Þjóðadeild UEFA í kvöld.

„Ég var bara mjög ánægður og við áttum þetta skilið,“ sagði markaskorarinn í samtali við Viapley eftir leikinn.

„Mig langaði að skora því það er orðið langt síðan. Þetta var annað markið mitt fyrir landsliðið og ég er bara ánægður með frammistöðuna hjá liðinu. Þetta var geggjuð frammistaða hjá liðinu og ég er mjög sáttu með úrslitin.“

„Ég hafði engu að tapa í kvöld. Ég spilaði fimm mínútur á móti Venesúela og ætlaði að sýna eitthvað í dag ef ég myndi koma inn á. Ég gerði það og er ánægður með það. En eins og ég segi þá er liðið það mikilvægasta af öllu og þetta var frábær liðsframmistaða. Ég er bara ánægður að geta hjálpað liðinu.“

Þá var Mikael einnig ánægður með það að fá gamla reynslubolta aftur inn í liðið. Hann segir það hjálpa þeim ungu strákunum mikið, þrátt fyrir að vera ekki svo ungur lengur að eigin sögn.

„Ég er ekki ungur, ég er orðinn 24 ára,“ sagði Mikael léttur. „Ég er kominn með reynslu í kringum mig og það er bara geggjað að fá eldri leikmennina inn sem koma með mikla reynslu og gefa mikið af sér. Maður getur lært helling af þeim og ég er ógeðslega ánægður að fá þá í liðið aftur. Það hjálpar öllum,“ sagði Mikael að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×