Skoðun

Ís­lensku­kennsla á vinnu­tíma – er allra hagur

Ragnheiður Jóna Jónsdóttir skrifar

Umræðan um erlent vinnuafl og íslenskunám rís hátt um þessar mundir og er það vel, enda er um mikilvægt málefni að ræða sem hefði gjarnan mátt taka meira pláss íslensku samfélagi hingað til. Íslenskunám á vinnustað á vinnutíma er nokkuð sem ég get mælt með fullum fetum, eftir að hafa reynt slíkt fyrirkomulag í Hannesarholti. Þar fengum við reyndan kennara í íslensku sem öðru máli á staðinn reglulega og bauð pólskum starfsmönnum okkar uppá kennslu sem var sérsniðin að þeirra þörfum.

Orðaforði kenndur sem hentar vinnustaðnum

Einn af kostunum við að vinnuveitandi bjóði uppá íslenskukennslu er að auðvelt er að innleiða orðaforða sem hentar vinnustaðnum og er þá líklegur til að komast í daglega notkun hjá nemendum. Þeir fengu orð yfir það sem þeir kunnu til hlýtar og sýsluðu með alla daga og þjálfun í að fjalla um það á íslensku. Þannig verður námið skilvirkara og líklegra að nemandinn nái skjótum framförum. Starfsmenn sem höfðu reynst vel í starfi en vantaði betri kunnáttu í íslensku gátu því styrkst á heimavelli og farið heim úr vinnunni með íslenskulexíurnar í fersku minni.

Hjálpum fólki í þjónustustörfum að læra íslensku

Í gegnum tíðina hefur sótt til okkar fjöldi af frambærilegu erlendu fólki sem hefur óskað eftir þjónastarfi í Hannesarholti. Niðurstaðan hefur verið sú að enginn hefur verið ráðinn til að þjóna til borðs í veitingastofum hússins sem ekki getur gert sig skiljanlegan á íslensku, enda eru gestir okkar á öllum aldri og óhugsandi að bjóða þeim aðeins uppá þjónustu á ensku. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að það sé ekki boðlegt á Íslandi að starfsmenn í þjónustu geti aðeins þjónað viðskiptavinum séu þeir ávarpaðir á erlendri tungu.

Gerum kröfur fyrir hönd íslenskrar tungu

Í raun er málið ósköp einfalt og varðar okkur öll sem búum á Íslandi. Hingað til hefur samfélagið verið þannig hugsað að allir hefðu aðgang að samfélagslegum gæðum eins og menntun og þjónustu. Allt slíkt fer fram á íslensku og þeir sem ekki tala málið eru líklegir til að missa af ýmsu sem annars stendur til boða.. Ef við viljum að samfélagið verði áfram í þessum anda er það nauðsynlegt að við hlúum að íslenskunámi þeirra sem hingað flytja og starfa í samfélagi okkar. Ef við viljum að íslenskan lifi þurfum við að gera kröfu um að hún sé notuð í þjónustu á Íslandi og þá verðum við að sjá til þess að þeir sem þeim störfum sinna hafi tækifæri til að læra íslensku. Ég mæli með íslenskukennslu á vinnutíma á kostnað vinnuveitanda. Það er góð fjárfesting sem skilar margfalt til baka.

Höfundur er menntunarfræðingur og stofnandi Hannesarholts.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×