Erlent

Greindu sprengingar við Nord Stream leiðslurnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Lekarnir valda miklu umbroti á yfirborði Eystrasalts.
Lekarnir valda miklu umbroti á yfirborði Eystrasalts. Danski herinn

Tvær sprengingar greindust greinilega á mælitækjum í Svíþjóð og Noregi þegar göt mynduðust á Nord Stream 1 og Nord Stream 2 leiðslunum í Eystrasalti. Þá birtu Danir í dag myndefni sem sýnir lekana á yfirborði hafsins.

Fyrsta sprengingin greindist klukkan 2:03 í fyrrinótt, að staðartíma, og sú síðari klukkan 19:04 í gærkvöldi. Sérfræðingar sem SVT ræddi við segja ljóst að um sprengingar sé að ræða. Ein þeirra er sögð hafa verið svo stór að hún mældist sem 2,3 stiga jarðskjálfti.

Yfirvöld í Þýskalandi er sögð rannsaka atvikin sem skemmdarverk.

Sjá einnig: Lekar í Nord Stream 1 og 2 mögu­lega skipu­lagðar á­rásir

Tveir lekar hafa greinst á NS-1 og einn á NS-2. Allir lekarnir eru á svipuðum slóðum skammt frá Borgundarhólmi en gasið frá þeim stærsta hefur valdið umbroti á yfirborðinu sem er allt að kílómetri í þvermál.

Flugher Danmerkur tók í dag meðfylgjandi myndband.

Nord Stream 1 var tekin í notkun árið 2011 en Rússar skrúfuðu fyrir flæði gass um leiðsluna í september. Framkvæmdum við Nord Stream 2 lauk á síðasta ári en leiðslan hefur ekki verið tekin í notkun vegna innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu.

Mikið magn af gasi er í leiðslunum, þó þær séu ekki í notkun.


Tengdar fréttir

Vill bregðast við væntanlegri orkukreppu með umfangsmiklum aðgerðum

Stríðið í Úkraínu og loftslagsbreytingar hafa haft gríðarleg áhrif í Evrópu og stefnir allt í orkukreppu í vetur. Forseti framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins hefur lagt til ýmsar aðgerðir til að bregðast við, þær stærstu muni skila meðlimaríkjum um 140 milljörðum evra. 

Danir lækka hitann í al­mennings­rýmum

Danir hafa ákveðið að lækka hitastigið í almenningsrýmum til þess að sporna gegn háu orkuverði í landinu. Neyðarlög voru samþykkt á danska þinginu fyrr í dag þar sem rafmagnsskattur var lækkaður.

Rússar muni skrúfa fyrir gas­flæði um Nord Stream 1 leiðsluna enn á ný

Orkurisinn Gazprom er sagður ætla að loka fyrir flæði á gasi í gegnum Nord Stream 1 gasleiðsluna til Þýskalands á morgun og muni lokunin vara í þrjá daga. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Gazprom lokar á flæði gass til Þýskalands en gasflæði þangað sem og til annarra Evrópuríkja hefur verið óstöðugt í nokkurn tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×