Innlent

Eru sagðir hafa sýnt árshátíð lögreglumanna sérstakan áhuga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Um það bil 50 lögreglumenn komu að aðgerðum sérsveitar ríkislögreglustjóra.
Um það bil 50 lögreglumenn komu að aðgerðum sérsveitar ríkislögreglustjóra. Vísir/Vilhelm

Árásir sem lögregla telur sig hafa komið í veg fyrir þegar fjórir voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum á þriðjudag, voru taldar yfirvofandi á næstu dögum.

Þetta hefur Morgunblaðið eftir heimildum. 

Morgunblaðið segir lögreglu hafa sett vörð um Alþingishúsið og þá greinir blaðið frá því að sjónir mannanna kunni að hafa beinst að árshátíð lögreglumanna, sem átti að fara fram í næstu viku.

Lögregla boðaði til blaðamannafundar í gær vegna málsins en rannsóknin er sögð á frumstigum. Lagt var hald á fjölda skotvopna, síma og tölva, sem nú verður rannsakaður. Tveir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins, annar í viku og hinn í tvær vikur.

Fjölnir Sæmundsson, formaður Landsambands lögreglumanna, sagði í samtali við RÚV í gærkvöldi að lögreglumenn væru slegnir yfir þróun mála. Hann sagði þetta svartan dag í sögu landsins, að lögregla væri nú að fást við hryðjuverkaógn. Um væri að ræða nýjan veruleika.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að það stæði ekki til að breyta hættumati vegna hryðjuverkaógnar í tengslum við málið. Lögregla teldi að með aðgerðunum hefði verið komist fyrir þá hættu sem steðjaði að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×