Erlent

Pútín sjái ekki bjálkann í eigin auga

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Kanslari Þýskaland segist Pútín ekki hafa breytt um skoðun.
Kanslari Þýskaland segist Pútín ekki hafa breytt um skoðun. Getty/Contributor

Kanslari Þýskalands segir Pútín neita að átta sig á því að hann hafi gert mistök með innrásinni í Úkraínu. Hann sjái ekki bjálkann í eigin auga og hafi ekki breytt afstöðu sinni að neinu leyti.

Olaf Scholz kanslari Þýskalands og Vladimír Pútín ræddu saman símleiðis í 90 mínútur fyrr í dag. Kanslarinn harmar að Pútín átti sig ekki á gjörðum sínum en telur mikilvægt að halda samskiptum við Pútín áfram.

„Það er rétt og eðlilegt að ræða hvor við annan og fá að segja honum það sem þarf,“ sagði Scholz við blaðamenn Breska ríkisútvarpsins. Kanslarinn sagði einnig að vopnasending Þýskalands hafi skipt sköpum í austurhluta Úkraínu.

Í símtalinu kenndi Pútín Úkraínumönnum um innrásina, eins og hann hefur gert frá upphafi hennar hinn 24. febrúar síðastliðinn.

Þjóðverjar hafa verið gagnrýndir fyrir að hafa ekki sent Úkraínumönnum fleiri vopn. Dmytro Kubela utanríkisráðherra Úkraínu sagði í tísti í gær aukinn stuðningur þeirra væri nauðsynlegur.

„Þjóðverjar valda okkur vonbrigðum. Það er erfitt að sjá að eitthvað ætti að koma í veg fyrir aukinn hernaðarlegan stuðning Þýskalands. Hvað hræðist Berlín sem við vitum ekki um?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×