Viðskipti innlent

Lóa Fatou nýr fram­kvæmda­stjóri rekstrar­sviðs hjá Good Good

Atli Ísleifsson skrifar
Lóa Fatou Einarsdóttir.
Lóa Fatou Einarsdóttir. Aðsend

Lóa Fatou Einarsdóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri rekstrarsviðs (COO) í höfuðstöðvum matvælafyrirtækisins Good Good í Reykjavík. Hún mun sem slíkur leiða uppsetningu og rekstur á starfsemi fyrirtækisins í Evrópu og Norður-Ameríku.

Í tilkynningu segir að Lóa Fatou hafi undanfarið starfað sem Director of Operations hjá Good Good, en áður vann hún hjá 66°Norður þar sem hún starfaði sem forstöðumaður rekstrarsviðs og var m.a. ábyrg fyrir samþættingu virðiskeðju félagsins ásamt rekstri vöruhúsa.

Lóa Fatou er með M.Sc. í rekstrarverkfræði frá DTU Kaupmannahöfn og B.Sc. gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Good Good er íslenskt sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á matvælum án viðbætts sykurs og með náttúrulegum innihaldsefnum. Samanstendur vöruframboðið meðal annars af sultum, hnetu- og súkkulaðismyrjum, sætuefnum, stevíu-dropum, sýrópi, bökunarvörum, hnetusmjöri og keto-börum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×