Umfjöllun og viðtöl: Fram 19-23 Valur | Valur er meistari meistaranna

Dagbjört Lena Sigurðardóttir skrifar
Valskonur fagna bikarnum
Valskonur fagna bikarnum Hulda Margrét

Valur vann fyrsta bikar vetursins er þær unnu Fram í uppgjöri meistara meistaranna, 19-23. Fram varð Íslandsmeistari á síðustu leiktíð á meðan að Valur vann bikarmeistaratitilinn. Valskonur voru með yfirhöndina allan leikinn en eftir að hafa verið yfir með tveimur mörkum í hálfleik sigldu þær öruggum sigri heim. 

Leikurinn fór virkilega hægt af stað og mátti finna fyrir miklu óöryggi beggja megin á vellinum. Valur skoraði fyrstu þrjú mörk leiksins og kom fyrsta mark Fram ekki fyrr en á 9. mínútu. Eftir rúmar tíu mínútur fóru liðin þó að finna taktinn en á 18. mínútu var staðan jöfn 5-5. 

Valskonur voru skrefinu á undan í fyrri hálfleik en Fram gaf þó ekkert eftir en þá voru lykilleikmenn beggja liða í miklu aðalhlutverki. Staðan í hálfleik 9-11 Val í vil.

Í síðari hálfleik gáfu Valskonur ennþá betur í en þegar tíu mínútur voru liðnar var Fram aðeins búið að skora eitt mark á móti fjórum hjá Val. Mikið var um klaufavillur í síðari hálfleik, ruðning, línu og skot yfir eða framhjá. Það hafði þó ekki of mikil áhrif á gestina því þær héldu góðu forskoti allt þar til flautað var til leiksloka. Valur sigraði að lokum leikinn með fjórum mörkum. Lokatölur í Framhúsi 19-23.

Afhverju vann Valur?

Valskonur komu mun sterkari til leiks heldur en Fram, þrátt fyrir að bæði lið hafi tekið sér sinn tíma til þess að finna taktinn. Valur spilaði virkilega góða vörn í leiknum sem skilaði einnig góðri markvörslu.

Hverjar stóðu upp úr?

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var frábær hjá Val í dag. Hún skoraði sjö mörk og átti einnig góðan leik í vörninni. Mariam Eradze skoraði fimm mörk fyrir Val. Sara Sif var virkilega flott í marki Vals en hún var með 44% markvörslu.

Í liði Fram stóð Steinunn Björnsdóttir upp úr en hún var með sex mörk ásamt því að vera í lykilhlutverki í vörninni. Perla Ruth Albertsdóttir átti einnig flottan leik en hún skoraði fimm mörk.

Hvað gekk illa?

Bæði lið voru lengi að finna sig í dag. Leikurinn fór hægt af stað og var lítið um mörk fyrsta stundarfjórðung leiksins. Valskonur voru ávallt skrefi á undan Fram sem átti erfitt með að finna mark andstæðinganna. Lang flest mörk í dag komu frá lykilleikmönnum liðanna en það vantaði aðeins upp á sjálfstraust þeirra ungu leikmanna sem eru að stíga sín fyrstu skref í úrvalsdeildinni. Sem er auðvitað eðlilegt.

Hvað gerist næst?

Nú fer olísdeildin að hefjast en fyrstu leikir verða spilaðir seinni part næstu viku. Fram á fyrsta leik deildarinnar á fimmtudaginn er þær mæta Stjörnunni á útivelli. Valskonur leika svo á föstudaginn við Hauka á heimavelli.

Stefán Arnarsson: „Við getum betur en þetta“

Stefán Arnarsson var ekki ánægður með Fram í dagHulda Margrét

Stefán Arnarsson, þjálfari Fram, var virkilega vonsvikinn með frammistöðu síns liðs í dag.

„Það eru mikil vonbrigði að hafa tapað leiknum. Við viljum auðvitað vinna leiki en við spiluðum ekki vel í dag og áttum ekkert gott skilið“.

„Það vantaði alveg ótrúlega margt upp á hjá okkur. Allir þættir leiksins voru ekki nógu góðir hjá okkur. Það eru miklar breytingar í gangi og það mun taka tíma að venjast þeim. En við getum betur en þetta“.

„Við viljum bara gleyma þessum leik alveg.“

„Við erum Fram. Og við viljum vinna alla leiki. Það er núna bara næsti leikur í deild og við verðum bara að gera betur“. Sagði hann að lokum.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir: „Við spiluðum alveg ótrúlega þétta vörn í dag“

Þórey Anna var markahæsti leikmaður vallarins í dagHulda Margrét

Þórey Anna var virkilega ánægð með frammistöðu Vals í dag en hún var markahæsti leikmaður leiksins.

„Mér líður alveg rosalega vel. Það er alltaf gaman að vinna titil“.

„Við spiluðum alveg ótrúlega þétta vörn í dag og við fengum alveg fullt af fríköstum. Ég held að það hafi orðið til þess að við höfum unnið þennan leik“.

„Ég myndi ekki segja í fljótu bragði að það hafi eitthvað vantað upp á hjá okkur. Við kannski gerðum nokkur klaufamistök í vörn en ekkert þannig séð til þess að tala um“.

Valskonur eru spenntar fyrir komandi tímabili.

„Við erum rosalega spenntar fyrir að tímabilið hefjist. Alveg klárlega. Þetta er það sem maður er búinn að vera að bíða eftir í allt sumar, að mæta aftur á parketið“.

„Við ætlum okkur alla leið“. Sagði Þórey að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira