Innlent

Svona verður dag­skráin við setningu Al­þingis á þriðju­dag

Atli Ísleifsson skrifar
Graduale Nobili syngur við þingsetninguna.
Graduale Nobili syngur við þingsetninguna. Graduale Nobili

Alþingi verður sett þriðjudaginn 13. september og hefst þingsetningarathöfnin klukkan 13:30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni, venju samkvæmt.

Í tilkynningu frá skrifstofu Alþingis segir að forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn muni ganga fylktu liði til kirkjunnar úr Alþingishúsinu. 

„Séra Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju, predikar og séra Elínborg Sturludóttir, prestur í Dómkirkjunni, þjónar fyrir altari. Dómorganistinn Kári Þormar leikur á orgel og Kammerkór Dómkirkjunnar syngur við athöfnina.

Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setur Alþingi, 153. löggjafarþing. Graduale Nobili syngur við þingsetningarathöfnina, undir stjórn Sunnu Karenar Einarsdóttur. Þingsetningarfundi verður síðan frestað til kl. 15:30. Þegar þingsetningarfundi verður fram haldið verður m.a. hlutað um sæti þingmanna og fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 útbýtt,“ segir í tilkynningunni.

Stefnuræða Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og umræður um hana verða svo miðvikudagskvöldið 14. september klukkan 19:35 og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mun svo mæla fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2023 fimmtudaginn 15. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×