Fótbolti

Vopnaðir þjófar handjárnuðu Aubameyang og frú á heimili þeirra

Sindri Sverrisson skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang býr ásamt fjölskyldu sinni í glæsilegum híbýlum, í nágrenni við villur í eigu Luis Suárez og Lionels Messi.
Pierre-Emerick Aubameyang býr ásamt fjölskyldu sinni í glæsilegum híbýlum, í nágrenni við villur í eigu Luis Suárez og Lionels Messi. Getty/David Ramos

Vopnaðir innbrotsþjófar réðust inn í hús Barcelona-stjörnunnar Pierre-Emerick Aubameyang og eiginkonu hans, Alysha Behague, í morgun.

Þjófarnir handjárnuðu hjónin og bundu þau föst, og þannig voru þau í nokkurn tíma á meðan að þjófarnir athöfnuðu sig.

Samkvæmt upplýsingum frá Barcelona urðu hjónin þó ekki fyrir neinum líkamlegum áverkum. Þau eiga tvö börn, ellefu og sex ára gömul, en ekki er vitað hvort þau voru heima þegar brotist var inn.

Aubameyang, sem er 33 ára gamall, var tiltölulega nýkominn heim eftir að hafa verið á varamannabekknum hjá Barcelona í 4-0 sigrinum gegn Real Valladolid í gærkvöld.

EPSN segir að þjófarnir hafi meðal annars neytt framherjann til að opna peningaskáp og stolið þaðan skartgripum og fleiri verðmætum eigum.

Þjófarnir ganga enn lausir, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Í síðustu viku var 70.000 evra úri stolið af Robert Lewandowski, samherja Aubameyangs hjá Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×