Viðskipti innlent

Sirrý nýr fram­kvæmda­stjóri um­hverfis­mála hjá Horn­steini

Atli Ísleifsson skrifar
Sigríður Ósk Bjarnadóttir, Sirrý, er doktor í byggingarverkfræði og sérfræðingur í sjálfbærni og umhverfismálum í mannvirkjagerð.
Sigríður Ósk Bjarnadóttir, Sirrý, er doktor í byggingarverkfræði og sérfræðingur í sjálfbærni og umhverfismálum í mannvirkjagerð. Aðsend

Sigríður Ósk Bjarnadóttir, Sirrý, hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri umhverfismála hjá eignarhaldsfélaginu Hornsteini ehf. og kemur til með að leiða umhverfis- og gæðasvið félagsins.

Í tilkynningu segir að Sirrý hafi gegnt lykilhlutverki í margvíslegum verkefnum tengt sjálfbærni og vistvænni mannvirkjagerð. Síðasta ár hafi hún starfað sem dósent við umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands. Þá hafi hún verið ráðgjafi í fjögur ár hjá VSÓ Ráðgjöf og byggt upp þjónustuframboð í sjálfbærnimálum tengt byggingariðnaði. 

„Hún var í lykilhlutverki í verkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar „Byggjum grænni framtíð – Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð 2030“ og stýrði vinnu mælingahóps sem vann að því að áætla kolefnislosun frá byggingariðnaði á Íslandi.

Sirrý lauk grunnnámi í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands 2008 og tveim árum síðar lauk hún framhaldsnámi við Michigan Technological University í byggingarverkfræði. Hún lauk síðan doktorsprófi í byggingarverkfræði árið 2012 og hefur skrifað fjölda ritrýndra fræðigreina og bókakafla varðandi loftslagsmál og aðlögunarhæfni bygginga og innviða,“ segir í tilkynningunni. 

Sirrý er gift Óskari Reynissyni, rafmagnsverkfræðingi hjá Rarik, og eiga þau tvo drengi, Bóas og Bent. Segir að í frítíma sínum ferðist þau mikið innanlands og njóti þess að vera í sumarbústað foreldra Sirrýjar í Rangárþingi ytra. Sirrý hafi nú þegar hafið störf hjá Hornsteini.

Eignarhaldsfélagið Hornsteinn, á og rekur þrjú dótturfélög, BM Vallá, Sementsverksmiðjuna og Björgun, sem eiga sér rótgróna sögu á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×