Innlent

Ölvuð börn verða færð í at­hvarf í kvöld

Árni Sæberg skrifar
Börnum er frjálst að skemmta sér fram á nótt í fylgd foreldra en alls ekki ef þau eru ölvuð.
Börnum er frjálst að skemmta sér fram á nótt í fylgd foreldra en alls ekki ef þau eru ölvuð. Vísir/Daníel Þór

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ætlar að taka hart á drykkju unglinga á Menningarnótt. Hún mun færa börn yngri en sextán ára í athvarf fyrir ungmenni verði þau úti eftir lögboðinn útivistartíma. Þá verða ölvuð börn undir átján ára einnig flutt í sama athvarf.

Lögreglan brýnir sérstaklega fyrir foreldrum að skilja börn sín ekki eftir í miðbæ Reykjavíkur þegar dagskrá menningarnætur lýkur með flugeldasýningu í kvöld. Hart verði tekið á drykkju unglinga í kvöld og vonast sé eftir liðveislu foreldra í því. Þetta kemur fram á Facebooksíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt ákvæðum barnalaga mega börn yngri en þrettán ára ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22 á tímabilinu 1. maí til fyrsta september. Börn á aldrinum þrettán til sextán ára þurfa að skila sér heim klukkan 24, séu þau ekki í fylgd með foreldrum.

Samkvæmt færslu lögreglunnar verða þó aðeins börn yngri en sextán ára flutt í athvarf fyrir ungmenni finnist þau á almannafæri eftir lögboðinn útivistartíma.

Börn á aldrinum sextán til átján verða þó færð í sama athvarf séu þau undir áhrifum áfengis og/eða annarra vímugjafa.

„Góða skemmtun í kvöld – njótum saman sem fjölskylda og verum góðar fyrirmyndir. Hlökkum til að eiga áfram frábæra Menningarnótt saman,“ segir í lok færslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×