Erlent

Selur braust inn á heimili og á­reitti heimilisköttinn

Bjarki Sigurðsson skrifar
Flestir eru sammála um að selurinn Óskar hafi verið hinn allra kurteisasti á meðan hann dvaldi í húsinu. Heimiliskötturinn gæti hins vegar verið ósammála því.
Flestir eru sammála um að selurinn Óskar hafi verið hinn allra kurteisasti á meðan hann dvaldi í húsinu. Heimiliskötturinn gæti hins vegar verið ósammála því. Háskólinn í Waikato

Selur braust inn á heimili íbúa úthverfisins Mount Maunganui í Nýja-Sjálandi á miðvikudaginn og dvaldi þar í tvær klukkustundir. Áður en hann kom sér fyrir inni í húsinu hafði hann hrellt heimilisköttinn.

Hjónin Jenn og Phil Ross búa í úthverfi við strendur Nýja-Sjálands en hús þeirra er staðsett um 150 metrum frá sjávarsíðunni. Það kom Jenn verulega á óvart þegar hún rambaði á sel heima hjá sér er hún kom heim til sín eftir að hafa verið í ræktinni.

„Hann varð smá hræddur og skreið allan ganginn í átt að gestaherberginu,“ segir Jenn í samtali við The Guardian en fjölskyldan hefur ákveðið að kalla selinn Óskar.

Fjölskyldan á kött og hefur Óskar komist inn í húsið í gegnum kattalúgu þeirra. Jenn telur að Óskar hafi mætt kettinum úti og ákveðið að elta hann. Þegar kötturinn flúði logandi hræddur inn um lúguna hafi Óskar einfaldlega gert slíkt hið sama.

Óskar var hinn allra kurteisasti á meðan hann dvaldi í húsinu og hafði vit fyrir því að dvelja í gestaherberginu, enda einungis gestur á heimilinu. Þegar Óskar hafði verið þarna í tvo klukkutíma komu yfirvöld, sóttu hann og komu honum aftur út á sjó.

Þrátt fyrir að fjölskyldan hafi haft gaman af þessum óvænta gesti þá er ekki hægt að segja það sama um köttinn. Hann neitaði að fara niður af efri hæð hússins í nokkurn tíma enda enn í áfalli eftir að Óskar elti hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×