Viðskipti innlent

Skráð at­vinnu­leysi minnkaði í júlí

Eiður Þór Árnason skrifar
Mest var hlutfallsleg fækkun atvinnulausra í ferðatengdum atvinnugreinum og upplýsingatækni- og útgáfu.
Mest var hlutfallsleg fækkun atvinnulausra í ferðatengdum atvinnugreinum og upplýsingatækni- og útgáfu. Vísir/Vilhelm

Skráð atvinnuleysi var 3,2% í júlímánuði og minnkaði um 0,1 prósentustig frá júní. Að meðaltali fækkaði atvinnulausum um 396 frá júnímánuði. Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi muni breytast lítið í ágúst og verða á bilinu 3,0% til 3,4%.

Þetta kemur fram í nýrri mánðarskýrslu stofnunarinnar. Að meðaltali voru 6.279 atvinnulausir í júlí, þar af 3.402 karlar og 2.877 konur. Af einstökum landshlutum dró mest hlutfallslega úr atvinnuleysi á Norðurlandi vestra og á Suðurlandi. 

Áfram er atvinnuleysi mest á Suðurnesjum en það minnkaði úr 5,8 í 5,5% milli júní og júlí. Næst mest var atvinnuleysið 3,5% á höfuðborgarsvæðinu og minnkaði úr 3,7% í júní. Alls höfðu 2.387 verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok júlí og fækkaði þeim um átta frá júní.

Vinnumálastofnun

Meiri fækkun hjá erlendum ríkisborgurum

Atvinnulausum fækkaði í öllum atvinnugreinum milli mánaða. Mest var hlutfallsleg fækkun atvinnulausra í ferðatengdum atvinnugreinum og upplýsingatækni- og útgáfu eða um 15% fækkun atvinnulausra milli mánaða.

Fram kemur í mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar að 2.842 erlendir atvinnuleitendur hafi án atvinnu í lok júlí og fækkað um 221 frá júní. Þessi fjöldi samsvarar um 7,3% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara. 

Fækkun atvinnulausra með erlent ríkisfang er meiri en þeirra með íslenskt ríksfang í júlí eða um 7% samanborið við tæplega 4% fækkun meðal atvinnulausra með íslenskt ríkisfang. Mesta fækkun atvinnulausra með erlent ríkisfang er meðal annars í ferðaþjónustu, fiskvinnslu og mannvirkjagerð.


Tengdar fréttir

At­vinnu­leysi 3,9 prósent í maí

Skráð atvinnuleysi var 3,9 prósent í síðasta mánuði og minnkaði úr 4,5 prósent í apríl. Að meðaltali fækkaði atvinnulausum um 812 frá aprílmánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×