Erlent

Geimjakki Buzz Aldrin frá tungl­lendingunni á leið á upp­boð

Bjarki Sigurðsson skrifar
Buzz Aldrin árið 2009 í tilefni fjörutíu ára afmæli tungllendingarinnar.
Buzz Aldrin árið 2009 í tilefni fjörutíu ára afmæli tungllendingarinnar. Getty/Michael Loccisano

Jakkinn sem geimfarinn Buzz Aldrin var klæddur í þegar hann var annar í sögunni til að stíga á tunglið er á leiðinni á uppboð. Talið er að jakkinn gæti selst á tvær milljónir dollara, rúmar 270 milljónir íslenskra króna.

Jakkinn fer á uppboð hjá Sotheby's uppboðshúsinu þann 26. júlí næstkomandi, ásamt fleiri munum úr einkasafni Aldrin. Flestir munanna tengjast Apollo 11-tunglleiðangrinum.

Umræddur jakki.Sotheby's

Aldrin, sem er orðinn 92 ára gamall, var hluti af fyrstu tungllendingunni og var annar til að stíga á tunglið, rétt á eftir Neil Armstrong. Hann segist vilja selja hlutina til að leyfa öðrum að njóta minjagripa úr þessari sögulegu ferð. „Ég vona að þetta safn leyfi einhverjum að sjá hvernig það er að vera Buzz Aldrin,“ segir í yfirlýsingu frá honum.

Jakkinn sem fer á uppboð er eini klæðnaðurinn úr ferðinni sem enn er í einkaeigu. Þess vegna er verðmiðinn á honum svona hár. Hann er gerður úr óeldfimu efni sem kallast Beta Cloth og er með nafni Aldrin, ásamt merki NASA.

Samferðarmenn Aldrin, Armstrong og Michael Collins, fengu eins jakka og eru þeir báðir til sýnis á Smithsonian flug- og geimsafninu í Washington DC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×