Fótbolti

„Þið elskið að spyrja út í þetta“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir svara spurningum á blaðamannafundinum í gær.
Glódís Perla Viggósdóttir svara spurningum á blaðamannafundinum í gær. Vísir/Vilhelm

Fyrirliðastaðan hefur verið aðeins til umræðu í íslenskum fjölmiðlum á þessu Evrópumóti og þá sérstaklega af hverju að fyrirliði liðsins í fjarveru Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, hafi ekki bara misst fyrirliðastöðuna til Söru heldur einnig varafyrirliðastöðuna til Glódísar Perlu Viggósdóttur.

Glódís Perla var spurð um það á blaðamannafundi hvernig það væri að vera orðinn nýr varafyrirliði íslenska landsliðsins.

„Þið elskið að spyrja út í þetta. Það er enginn að pæla jafnmikið í þessu og þið,“ sagði Glódís Perla brosandi en orðin smá þreytt á að svara þessu.

Það breytir ekki því að það segir mikið um stöðu hennar í liðinu að hún sé nú komin í þessa stöðu.

„Það er gríðarlegur heiður en eins að sama skapi eins og við höfum verið að leggja áherslu á. Við erum með fullt af leiðtogum í hópnum og það skiptir ekki öllu máli hver er með þetta band eða hver ekki. Það eru allir að skila sínum hlutverkum ótrúlega vel,“ sagði Glódís.

„Gunnhildur stóð sig ótrúlega vel þegar hún var með bandið og sömuleiðs Sara fyrir það og svo aftur núna. Þetta er bara eitthvað formsatriði,“ sagði Glódís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×