Innlent

Rúmar tvær milljónir króna á mánuði fyrir að stýra Mos­fells­bæ

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Regína fær rúmar tvær milljónir króna í grunnlaun en þar að auki 150 þúsund króna ökutækjastyrk og sveitarfélagið greiðir fyrir símann hennar og net.
Regína fær rúmar tvær milljónir króna í grunnlaun en þar að auki 150 þúsund króna ökutækjastyrk og sveitarfélagið greiðir fyrir símann hennar og net. Vísir/Vilhelm

Bæjarráð Mosfellsbæjar gerði ráðningarsamning við Regínu Ásvaldsdóttur, nýjan bæjarstjóra Mosfellsbæjar, í gær. Samkvæmt ráðningarsamningi fær Regína rúmlega tvær milljónir króna í mánaðarlaun, ökutækjastyrk að andvirði 150 þúsund króna auk greidds síma og nets.

Föst heildarlaun Regínu verða 2.041.250 króna. Hún fær ekki greitt fyrir vinnu utan hefðbundins vinnutíma og seta á fundum bæjarstjórnar, bæjarráðs og öðrum nefndarfundum innifalinn í laununum. Launin munu taka breytingum samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar árlega þann 1. júlí.

Auk grunnlauna fær Regína ökutækjastyrk sem nemur 158.750 krónum en í ráðningarsamningi er gert ráð fyrir að hún keyri 1.250 kílómetra á mánuði vegna starfsins. Í ofanálag mun Mosfellsbær leggja Regínu til tölvu og farsíma og greiða farsímakostnað hennar.

Regína tekur við starfi bæjarstjóra af Haraldi Sverrissyni sem var bæjarstjóri Mosfellsbæjar frá 2007 þar til nú. Í ráðningarsamningi Haraldar frá 2018 voru laun hans í samræmi við úrskurð kjara­ráðs um laun ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis. Laun hans námu þá rétt tæplega tveimur milljónum, eða 1.947.493 krónum á mánuði þegar yfirvinna og ökutækjastyrku bættust við grunnlaun.

Regína hefur áður gegnt starfi bæjarstjóra en ekki í Mosfellsbæ heldur Akranesi. Þá vann hún síðast sem sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×