Erlent

Ólga á Ítalíu

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Frá vinstri, Mario Draghi forsætisráðherra og Sergio Mattarella forseti Ítalíu.
Frá vinstri, Mario Draghi forsætisráðherra og Sergio Mattarella forseti Ítalíu. EPA-EFE/ETTORE FERRARI

Fimm stjörnu hreyfingin á Ítalíu hefur beitt forsætisráðherra landsins Mario Draghi, miklum þrýstingi nú á síðustu misserum en hún er hluti af ríkisstjórn Draghi. Í gær sniðgekk hreyfingin kosningu frumvarps um framfærslukostnað og leiddi þannig í ljós vantraust sitt á Draghi. Forsætisráðherrann hefur boðist til þess að segja af sér en forseti Ítalíu, Sergio Mattarella hafnaði því.

Giuseppe Conte leiðtogi Fimm stjörnu hreyfingarinnar, sakaði Draghi nú í lok júní um það að reyna að bola honum út úr hreyfingunni og hreyfingunni í heild úr stjórnarsamstarfinu.

Spenna er nú þegar innan Fimm stjörnu hreyfingarinnar en utanríkisráðherra Ítalíu, Luigi Di Maio sagði sig úr flokknum undir lok júní vegna viðhorfs Conte til vopnasendinga til Úkraínu vegna stríðsins þar í landi. Conte hefur talað gegn vopnasendinga til Úkraínu og hvatt til samtals við Rússland.

Conte hefur einnig lagt fram hinar ýmsu kröfur til forsætisráðherrans nú í byrjun júlí til þess að tryggja mætti stuðning hreyfingarinnar við ríkisstjórnarsamstarfið.

Stjórnmálafólk kýs á þinginu í gær.Associated Press/Gregorio Borgia

Í gær var kosið um frumvarp sem hefði eyrnamerkt 26 milljarða Evra til þess að draga úr framfærslukostnaði fyrir ítölsku þjóðina. Draghi setti kosningu frumvarpsins upp sem traustsyfirlýsingu og hlaut frumvarpið nægan stuðning en Fimm stjörnu hreyfingin sniðgekk kosninguna.

Í kjölfar frumvarpskosningarinnar ræddi Draghi stöðu sína við forseta Ítalíu, Sergio Mattarella. Draghi bauðst til þess að falla frá embætti en Mattarella hafnaði því. Kosið verður um traust til Draghi á miðvikudag í næstu viku en óvíst er hvort stjórnarsamstarfið haldi velli. Springi stjórn forsætisráðherrans er óttast að óstöðugleiki í kjölfar þess verði áþreifanlegur víða um Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×