Erlent

Forseta Srí Lanka mistókst að flýja land

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Gotabaya Rajapaksa hefur aðeins verið forseti Srí Lanka frá árinu 2019.
Gotabaya Rajapaksa hefur aðeins verið forseti Srí Lanka frá árinu 2019. Andy Buchanan/Getty

Gotabaya Rajapaksa, forseta Srí Lanka, hefur mistekist að flýja land. Flugvallarstarfsmenn eru sagðir hafa komið í veg fyrir að forsetinn gæti notað sérútgang til að komast í flug til Dubai.

Fregnir herma að Rajapaksa, sem átti að segja af sér næstkomandi miðvikudag, hafi gert tilraun til að flýja landið í gær, að kvöldi mánudags. Að sögn yfirvalda neitaði flugvallarstarfsfólk að hleypa forsetanum að einkasvæði flugvallarins, með þeim afleiðingum að Rajapaksa fékk ekki stimplun á vegabréf sitt og missti af nokkrum flugum til Dubai.

Enduðu Rajapaksa og kona hans á því að halda til nærliggjandi herstöðvar.

Þeir embættismenn sem ræddu við Agence France-Press segja forsetann nú íhuga að nýta sér herskipaflota landsins til að koma sér úr landi, án þess að það hafi fengist staðfest. 

Þar sem Rajapaksa er enn forseti landsins, er hann undanþeginn handtökuheimildum og er honum því mikið í mun að komast úr landi áður þeirri undanþágu lýkur. Forsetinn er nú sakaður um spillingu og mikla óstjórn fjármála sem hafi keyrt efnahag landsins í þrot og leitt af sé verstu kreppu landsins frá upphafi.

Þá situr forsetinn einnig undir ásökunum um stríðsglæpi sem tengjast mannshvarfi og þætti hans í borgarastríðinu í Srí Lanka árið 2009, er hann gegndi embætti varnarmálaráðherra. Um áratugaskeið hefur verið komið í veg fyrir að þessar ásakanir komist til kasta dómstóla.


Tengdar fréttir

Mót­mælendur brutust inn á heimili for­seta Srí Lanka

Íbúar Srí Lanka hafa mótmælt stjórnvöldum harðlega undanfarna mánuði vegna efnahagsástandsins þar í landi. Í dag brutust mótmælendur inn á heimili og skrifstofu forseta landsins. Þingið kom þá saman og forsætisráðherrann samþykkti að segja af sér þegar flokkar koma sér saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×