Sport

Djoko­vic ætlar ekki að láta bólu­setja sig og mun ekki keppa á Opna banda­ríska

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Novak Djokovic verður ekki með Opna bandaríska (US Open).
Novak Djokovic verður ekki með Opna bandaríska (US Open). EPA-EFE/NEIL HALL

Aðeins örfáum klukkustundum eftir að tryggja sér sinn fjórða Wimbledon-titil í röð tilkynnti Novak Djokovic að hann muni ekki keppa á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis þar sem hann ætlar ekki að láta bólusetja sig við kórónuveirunni. 

„Ég er ekki bólusettur og stefni ekki á að láta bólusetja mig,“ sagði Djokovic eftir sigurinn á Wimbledon á sunnudag. Sem stendur þurfa allir keppendur Opna bandaríska að vera bólusettir nema þeir fái undanþágu. Stutt er síðan Djokovic lenti í allskyns veseni í Ástralíu eftir að hafa mætt þangað óbólusettur. 

Þá sagðist Djokovic hafa fengið undanþágu en enginn kannaðist þó við að hafa gefið honum eina slíka og var honum á endanum vísað úr landi.

„Ég held að undanþága sé ekki raunhæfur möguleiki,“ bætti hinn 35 ára gamli Serbi við á sunnudag.

Sem stendur mun Djokovic heldur ekki fá að keppa í Ástralíu á næsta ári þar sem hann er óbólusettur. Kappinn viðurkenndi að hann vissi ekki hvenær hann myndi keppa næst.

„Ég er í fríi. Ég mun bráðlega komast að því hvort ég sé að fara keppa á næstunni en næstu vikur mun ég taka því rólega þar sem undanfarnir mánuðir hafa verið virkilega krefjandi. Svo bíð ég eftir góðum fréttum frá Bandaríkjunum því ég vill spila þar. Ef það gerist ekki þá þarf ég að skoða dagskrána og sjá hvað gerist,“ sagði Novak að endingu.

Novak Djokovic er sem stendur í 3. sæti heimslistans en mun ekki klífa hann þökk sé sigrinum á Wimbledon þar sem engin stig voru gefin á mótinu vegna banns þess á keppendur frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. 

Sem stendur verður Djokovic í 7. sæti á næsta heimslista og mun halda áfram að falla niður listann fari svo að hann missi af Opna bandaríska sem hefst þann 29. ágúst næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×